Áður en heimsfaraldurinn skall á var fjöldaferðamennska þegar farin að valda miklu álagi á umhverfið okkar. Nú þegar við förum að sjá fram úr kófinu og ferðaiðnaðurinn tekur við sér er það mikil áskorun að tryggja að ferðaþjónusta í heimi eftir heimsfaraldur komi til baka með sjálfbærari hætti.
Ferðaþjónusta er ein af stærstu atvinnugreinum heims og skapar tíunda hvert starf á heimsvísu. Ferðaiðnaðurinn skapar einnig heilmikil tækifæri við að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Má þar nefna heimsmarkmið 15 um líf á landi, heimsmarkmið 14 um líf í vatni. Heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og heimsmarkmið 1 um útrýmingu fátæktar. Við þessi og fleiri til getur ferðaþjónustan lagt sitt af mörkum og gerir nú þegar að mörgu leyti. ISO staðlar geta stutt við ferðaiðnaðinn við að ná öllum sínum markmiðum í þeirri viðleitni að hér á landi sem og annarsstaðar sé stunduð sjálfbær ferðamennska.
Græn ferðaþjónusta er ekki nýtt hugtak en innan þess má finna mikið misræmi og mismunandi aðferðir sem hamlað geta frekari framförum í átt að grænni ferðaþjónustu. Í þessu skyni er verið að þróa alþjóðlegan staðal sem lýsir sjálfbærum meginreglum um ferðamennsku.
ISO 23405, Ferðaþjónusta og tengd þjónusta - Sjálfbær ferðaþjónusta - Meginreglur, hugtök og fyrirmynd, skapar vettvang fyrir greinina með því að leggja fram sammæltar skilgreiningar og hugtök sem byggja má sjálfbær ferðaþjónustulíkön á. Þessi nýi staðall mun verða mikilvæg viðbót jafnt fyrir einkaaðila sem og opinberar stofnanir, óháð stærð þeirra og staðsetningu og mun styðja við það verkefni að bera kennsl á, meta og draga úr neikvæðum áhrifum sem fyrirtæki eða stofnanir geta haft á umhverfið ásamt menningu hvers staðar fyrir sig. Að sama skapi er hágæða þjónustu viðhaldið og velferð starfsmanna tryggð.
Hvort sem um er að ræða tjaldstæði eða fimm stjörnu hótel og allt þar á milli, hafa slíkir gististaðir ferðamanna áhrif á umhverfið og samfélagið sem þeir eru starfræktir í. Áhrifin ná langt út fyrir þeirra nærumhverfi. ISO 21401, Ferðaþjónusta og tengd þjónusta - Sjálfbærni stjórnunarkerfi fyrir gististaði - Kröfur, getur hjálpað til við að gera þau áhrif eingöngu jákvæð. Það er að segja án neikvæðra umhverfisáhrifa en talsverðum jákvæðum samfélagslegum áhrifum.
Staðallinn skilgreinir umhverfis-, félags- og efnahagslegar kröfur við að innleiða sjálfbært stjórnunarkerfi fyrir ferðamannastaði. Staðallinn mun taka á þáttum eins og mannréttindum, heilsu og öryggi starfsmanna og gesta, umhverfisvernd, vatns- og orkunotkun, úrgangsmyndun og þróun á staðbundnu hagkerfi.
Að halda ströndum okkar hreinum og vistvænum gerir ekki aðeins heimsóknir þangað ánægjulegri heldur er það líka hollt fyrir alla náttúru jarðar. Að ganga illa um þær hefur áhrif á efnahag, líffræðilegan fjölbreytileika og okkar dýrmætustu auðlind, hafið í kringum landið.
Á Íslandi eru margar fagrar en fjölsóttar strendur. Það getur því verið áskorun fyrir yfirvöld að stýra álagi þannig að ekki hljótist skaði af fyrir umhverfi þeirra. ISO 13009, ferðaþjónusta og tengd þjónusta - Kröfur og tillögur um rekstur strandsvæða, veitir öflugar og alþjóðlega sammæltar leiðbeiningar sem ná yfir allt frá öryggi stranda og vatns, til hreinsunar, innviða, förgunar úrgangs, skipulagningar og upplýsingagjafar. Sá staðall auðveldar einnig að tryggja að ýmis afþreyingarstarfsemi við strendur landsins fari fram með samfélagslega ábyrgum hætti og veitir leiðbeiningar um öryggi og hollustu gesta sem heimsækja strendur landsins.
Eftir takmarkanir síðastliðins árs og það sem af er þessu ári er talið að ævintýraferðamennska muni fara á mikið flug þar sem ferðamenn munu nýta sér frelsið sem mest og leita í krefjandi og upplífgandi ferðamennsku. ISO 20611, ævintýraferðamennska - Góð vinnubrögð til sjálfbærni - Kröfur og ráðleggingar, veitir ferðaþjónustuaðilum í ævintýraferðum alla þá leiðsögn sem þeir þurfa til þess að tryggja að slíkar ferðir séu ekki bara skemmtileg upplifun heldur einnig jákvæð fyrir umhverfið. Staðallinn er mjög ítarlegur með alhliða nálgun sem felur í sér fræðslu til ferðamanna þar sem gripið er til aðgerða til að stuðla með fyrirbyggjandi hætti að varðveislu náttúru og umhverfis.
Verndun lífs í hafinu er markmið heimsmarkmiðs 14 og hefur það hlutverk að vernda höfin og stuðla að sjálfbærri þróun við nýtingu sjávarauðlinda. Ferðaþjónustuaðilar sem bjóða upp á köfunarferðir bæði í hafinu og í ferskvartni geta gegnt jákvæðu hlutverki. Til þess að auðvelda þeim verkefnið hefur ISO ráðist í gerð fjölda alþjóðlegra staðla á því sviði sem beinast að sjálfbærum rekstraraðferðum.
ISO 21416, Afþreyingarköfunarþjónusta - Kröfur og leiðbeiningar um umhverfislega sjálfbæra starfshætti í köfunarafþreyingu, sem dæmi, mun hjálpa ferðaþjónustuaðilum sem bjóða upp á köfun við að vernda umhverfi hafsins og vatnaumhverfi almennt. Sá staðall geymir bestu alþjóðlegu venjur á sviðinu, svo sem við að hindra að vatnaumhverfi verði fyrir einhverjum skaða af starfseminni eða hvernig stjórna beri bátum á umhverfisvænan hátt.
Hér má nefna líka ISO 21417, Afþreyingarköfunarþjónusta - Kröfur um þjálfun í umhverfisvitund fyrir frístundakafara, sem miðar að því að fræða kafara um umhverfisáhrif köfunar til að auðvelda þeim að draga úr hættu á að umhverfi vatna og hafs hljóti skaða af rekstrinum.
Allir þessir staðlar, og fleiri til, eru þróaðir af tækninefnd ISO fyrir ferðaþjónustu og eru aðgengilegir í staðlabúðinni okkar á www.stadlar.is