Átta góðar ástæður fyrir staðlanotkun

Líklega vita fæstir að Staðlaráð Íslands hefur á boðstólnum um 50.000 staðla, þar af um 28.000 íslenska. Staðlar eiga ýmist rætur að rekja til evrópskra eða alþjóðlegra staðlasamtaka en hér á landi skrifum við svo líka séríslenska staðla sem auðvelda og einfalda ótrúlega margt í atvinnulífinu og stjórnsýslunni. Staðlar um lyftuvíra og logsuðutæki, samfélagslega ábyrgð og stjórnkerfi menntastofnana, gúmmíhanska og gæðakerfi. Ekkert er okkur óviðkomandi. 

Hér eru átta góðar ástæður fyrir staðlanotkun og hvernig staðlar hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja eða stofnana.

1. Staðlar eru mörg ólík verkfæri

Til eru nokkrar tegundir staðla. Má þar nefna ýmsar tegundir stjórnkerfisstaðla, kröfustaðla, svo sem um hljóðvist eða byggingarstig húsa, aðferðarstaðla sem til dæmis segja til um prófunaraðferðir og grunnstaðla sem til dæmis segja til um mál og stærðfræðitákn. Það er sumsé stöðlum að þakka að metrinn er allstaðar jafn langur og umferðamerkin eru að mestu leyti eins, sama hvar við erum. 

2. Staðlar eru samandregin og sammælt þekking hinna færustu

Staðlar eru búnir til í sérstökum tækninefndum sem skipaðar eru sérfræðingum úr hópi hagsmunaaðila. Þátttaka í staðlastarfi er öllum opin. Til að staðall verði til þurfa sérfræðingar að koma sér saman um viðmiðin. Þar ræður ekki afl fjármuna eða yfirburðarstaða umfram aðra. Tækninefndin, á hlutlausum vettvangi staðlasamtaka, sammælist þannig um bestu leiðina til að tryggja öryggi, gæði og samvirkni. 

3. Staðlar eru notaðir til stuðnings lögum og reglum

Þó að staðlar séu í grunninn valfrjálsir er oft vísað til krafna, sem finna má í stöðlum, í íslenskum lögum og reglugerðum. Með því eru kröfur skv. staðli gerðar að lágmarkskröfum og með því er til dæmis öryggi neytenda tryggt á sviði vinnueftirlits, byggingavara, leikfanga o.s.frv.

4. Staðlar gegna mörgum ólíkum hlutverkum

Staðlar ryðja úr vegi viðskiptahindrunum, auka nýsköpun, tryggja samvirkni kerfa og eru verkfæri til að bregðast við áskorunum. Svo leggja þeir grunninn að alls kyns kerfum. Dæmi um það eru fjarskiptakerfi. Það er engin tilviljun að símkerfi geti þjónustað farsíma frá öllum framleiðendum eða að netbankinn þinn virkar í öllum snjalltækjunum þínum. 

5. Staðlar eru hryggjarstykki ýmissa mikilvægra kerfa. 

Staðlar eru mjög mikilvægir þegar kemur að því að ákveða grunngerðir alls kyns kerfa. Þjónusta framtíðarinnar byggir á því. Hvernig eiga ólík kerfi opinberra stofnana að tala saman í framtíðinni? Hvernig getum við einfaldað rafræna stjórnsýslu? Hvernig á að tryggja gagnaöryggi og persónuvernd? Hvernig ætlum við að létta okkur lífið til framtíðar? Staðlaðar grunngerðir á öllum sviðum opinberrar stjórnsýslu og stórra aðila í einkarekstri, svo sem banka, eru lykill að auknu hagræði, skilvirkni, meiri nýsköpun, sjálfbærni, aukinni samfélagslegri ábyrgð og gæðastjórnun sem byggir á raunverulegum upplýsingum, ekki tilfinningu eða pólitík. 

6. Staðlar varða leið að samhæfðum árangri

Það er hægt að varða leiðina að því að uppfylla öll heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með hátt í 1000 stöðlum sem nú þegar eru til. Það er líka hægt að byggja alla innviði snjallsveitarfélaga með hjálp staðla. Það er engin tilviljun að það er mjög hættulítið að ferðast fljúgandi á milli landa og að þau ferðalög ganga býsna vel, svona allra jafna. Það er heldur engin tilviljun að hleðslutæki fyrir síma eru flest orðin eins. 

7. Staðlanotkun leiðir af sér efnahagslegan ávinning

Rannsóknir sýna að staðlanotkun er ábatasöm og stjórnendur fyrirtækja segja ávinning af staðlanotkun meiri en kostnað við kaup og innleiðingu þeirra. Staðlar eru taldir stuðla að 0,7% framleiðniaukningu fyrirtækja árlega og hafa stuðlað að verulegri aukningu á landsframleiðslu undanfarna áratugi. 

8. Staðlar geyma þekkt og vel skilgreind viðmið

Staðlar eru frábær leið til að skilgreina kröfur í viðskiptasamningum og til að tryggja sameiginlegan skilning gæðum og öryggi. Vegna þess er handhægt og einfalt að vísa til staðla. svo sem tæknilýsinga í útboðsgögnum til að tryggja árangur útboða og samninga.  

Staðlar henta öllum og allsstaðar

Aukin staðlanotkun þýðir ekki að allt verði einsleitt og grátt. Þvert á móti. Staðlanotkun er heldur ekki bara fyrir orkuveitur og verkfræðistofur. Þeir henta ekki síður litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Staðlanotkun ætti að vera hluti af framtíðarstrategíu stjórnenda allra fyrirtækja sem taka rekstur sinn alvarlega og þátttaka í staðlastarfi ætti að vera hluti af daglegum störfum þeirra sem tekið hafa forystu á sínu sviði. Þannig viðhöldum við samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og stofnana.  

 

Menu
Top