Ný útgáfa af ÍST 51:2001 Byggingarstig húsa

Byggingarstaðlaráð hefur auglýst til umsagnar frumvarp að 5. útgáfu ÍST 51: Byggingarstig húsa. Vinnuhópur hagsmunaaðila á vegum ráðsins hefur skilað af sér frumvarpi þar sem efni staðalsins hefur verið yfirfarið og endurskoðað í heild sinni. Hér verður gerð grein fyrir  helstu breytingum á milli útgáfa en varðandi einstaka breytingar þá vísast til frumvarpsins. Einnig hefur verið haldinn fjölmennur kynningarfundur um breytingarnar þar sem gafst kostur á umræðum og ábendingum.
 
ÍST 51 er mikið notaður staðall sem kom fyrst út 1972 þar sem skilgreint var byggingarstig einstakra notaeininga bygginga og heilla bygginga. Notkun staðalsins er m.a. í viðskiptum með fasteignir þar sem skilaástand milli kaupenda og seljenda er lýst, þar sem lýsa þarf á einfaldan hátt framvindu byggingarframkvæmda og staða framvindu ákvörðuð með byggingarstigum m.a. vegna skráningar hjá sveitarfélögum.
 
Helstu breytingar í frumvarpinu.
 
Fjöldi byggingarstiga í staðlinum hefur nú verið fækkað úr sjö í fjögur þar sem tiltekin byggingarstig hafa varla verið notuð. Með þessu er framsetning markvissari og auðveldari í notkun
Einstaka greinar hafa verið aðlagaðar nýjum og breyttum byggingaraðferðum og byggingarefnum.
Nokkuð var um samhljóða skýringartexta við stakar greinar í staðlinum, þessar skýringar hafa nú verið færðar í eina almmenna grein í upphafi staðalsins
Hugtök og orðanotkun hefur verið samræmd við gildandi lög og reglugerðir
Í staðlinum er nú talað um leyfishafa og leyfisveitanda t.d. í stað byggingarfulltrúa og byggingaryfirvöld
Kaflinn um dagsetningar ýmissa skráninga og framkvæmdarstiga var síðasti kafli staðalsins en hefur nú verið færður í kafla eitt í samfellu við skilgreiningu byggingarstiga
Viðauki A sem hægt er að nota til að ákveða atriði sem eru utan byggingarstiga staðalsins er að mestu óbreyttur en nú munu notendur staðalsins geta nálgast viðaukann á heimasíðu Staðlráðs rafrænt til nota við að lýsa ástandi bygginga eða byggingarhluta
Frumvarpið í heild sinni má nálgast hér í Staðlabúðinni. Þeir sem kaupa frumvarpið fá endanlega útgefin staðal sent til sín án endurgjalds. 
 
Ef einhverjar athugasemdir eru við frumvarpið má koma þeim á framfæri hér. Þarf að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum til að fá aðgang að forminu. 
 
Að síðustu færir Byggingarstaðlaráð vinnuhópnum sem vann að endurskoðun kærar þakkir fyrir óeigingjarnt vinnuframlag, þeim Davíð Björnssyni, Elmari Erlendssyni, Einari Páli Kærnested, Friðrik Á Ólafssyni, Guðjón Steinssyni, Hafsteini Pálssyni, Jóni Guðmundssyni, Magnúsi Sædal Svavarssyni og Sveini Björnssyni.
 
Arngrímur Blöndahl, ritari Byggingarstaðlaráðs
Menu
Top