Háskóli Íslands og Staðlaráð Íslands í samstarf

Auka á þekkingu og aðgengi nemenda og starfsfólks Háskóla Íslands að stöðlum af ýmsu tagi samkvæmt samstarfssamningi sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands, undirrituðu fyrir hönd stofnanna tveggja á dögunum.

Staðlaráð Íslands gefur út íslenska staðla sem snerta ótal svið samfélagsins en í þeim felast reglur, leiðbeiningar eða skilgreiningar sem geta t.d. verið grunnstaðlar um mál og vog, kerfisstaðlar um virkni greiðslukorta og hraðbanka, hugtaka- og táknastaðlar um tákn á skiltum, aðferðarstaðlar t.d. um gæðastjórnun, samfélagsábyrgð og stjórnun upplýsingaöryggis og prófunarstaðlar á efnainnihaldi og styrkleika steypu. Alls er að finna ríflega 50 þúsund gilda staðla í Staðlabúðinni sem m.a. eiga rætur að rekja til aðildar ráðsins að ýmsum fjölþjóðlegum staðlasamtökum, þar á meðal hinum vel þekktu ISO-staðlasamtökum.

Með samstarfinu við Háskóla Íslands vill Staðlaráð leggja sitt af mörkum til aukinnar þekkingar á stöðlum innan háskólasamfélagins og jafnframt bæta aðgengi að stöðlum og staðlatengdum málum. Því tekur samstarfssamningurinn til þriggja þátta:

Nemendum innan Háskólans mun gefast kostur á að fara í starfsnám hjá Staðlaráði Íslands.

Nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum býðst að fá tímabundinn frían lesaðgang að stöðlum á vegum ráðsins til nota í sínu starfi.

Starfsmenn Staðlaráðs geta komið í kennslustundir í einstökum námskeiðum með fræðslu og umfjöllun um staðla og staðlatengd málefni.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Staðlaráðs er til þriggja ára.

Fréttin er tekin af vef Háskóla Íslands.
Menu
Top