Hnattræn hlýnun

Við búum við neyðarástand í loftlagsmálum en það er margt sem við getum gert.

Þær takmarkanir sem Covid-19 faraldurinn hefur leitt af sér á alheimsvísu þóttu lofa góðu fyrir loftslagið og fyrir baráttuna við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Raunin er sú að það hefur ekki dugað til og er hlutfall koltvísýrings í andrúmsloftinu hærra en áður. Þetta kemur varla á óvart þar sem á árinu 2020 höfum við séð einhver verstu veður í mannkynssögunni eiga sér stað. Hrikalegir fellibyljir í Suðaustur-Asíu, skógareldar sem geisað hafa í Ástralíu og Kaliforníu og aftakaflóð í Mið-Afríku hafa bæst við listann yfir öfgakennda atburði sem 2020 verður minnst fyrir.

Nýlega gekk Nýja Sjáland til liðs við meira en 1.800 lögsagnarumdæmi víðsvegar um heim í að lýsa yfir „neyðarástandi í loftlagsmálum“ sem er skuldbinding um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á lands- eða sveitarstjórnarstigi. Slík yfirlýsing er mikilvægt skref í baráttunni við loftlagsvána en þykir ekki nægja ein og sér til þess að vinna bug á vandanum.

Nú á fimm ára afmæli Parísarsamkomulagsins er þess minnst að ekki verður unnt að vinna  bug á vandanum með yfirlýsingum frá ríkisstjórnum heimsins einum og sér, heldur verði fyrirtæki, stofnanir og samtök að grípa til aðgerða að sama skapi. En hvað getur fyrirtækið þitt gert til þess að draga úr umhverfisáhrifum sínum og stuðla að því að markmiðum í loftlagsmálum verði náð?

Þróum græna menningu

Það er góður undanfari jákvæðra breytinga að tryggja það að umhverfismálin séu öllum ofarlega í huga innan skipulagsheildarinnar og að tekið sé tillit til umhverfisins í allri stefnu og ferlum. Að vita hvernig þú hefur áhrif á umhverfi þitt, hvort sem er jákvætt eða neikvætt, veitir þér grundvöll til að vita hvernig hægt er að nýta auðlindir skynsamlega og hvaða aðgerðir eru skaðlegar fyrir umhverfið.

Traust og hlutlægt ferli til að mæla áhrif okkar á umhverfið er grundvöllur umhverfisstjórnunarkerfis eins og ISO 14001 staðalsins. Með nákvæmni er hægt að greina hvernig við berum kennsl á, stjórnum og fylgjumst með áhrifum okkar á umhverfið sem leiðir af sér betri nýtingu auðlinda, betri sorphirðu, minni mengun og jafnvel lækkun rekstrarkostnaðar. Áhrifaríkt umhverfisstjórnunartæki nálgast umhverfismál með heildstæðum hætti svo draga megi úr neikvæðum áhrifum á umhverfið í tiltekinni framleiðslu.

Reiknaðu út kolefnispor þitt

Það getur verið erfitt að breyta því sem ekki er hægt að mæla samt eru margar leiðir t.a.m. til þess að slægja fisk. Aðferðafræði sem er alþjóðlega viðurkennd hjálpar verulega til þess vegna þess að tölurnar verða sambærilegar og skilvirkar fyrir fjárfesta og hagsmunaaðila þegar þeir rýna í ársskýrslur fyrirtækja.

ISO 14064 staðlaröðin er frábært verkfæri sem hægt er að nýta við að reikna út kolefnisspor. Tækið er samstillt GHG protocol og sambærilegt flestum slíkum aðferðum sem gefa upplýsingar um magn, vöktun og staðfestingu á losun gróðurhúsalofttegunda. Þeim til viðbótar er svo ISO 14067 staðallinn sem tilgreinir meginreglur, kröfur og leiðbeiningar um magn og tilkynningar á kolefnisfótspori ákveðinnar vöru.

Að grípa til aðgerða

Jafnvel þegar samtökum eða fyrirtækjum er það ljóst hvernig þeim gengur, hvað varðar umhverfisáhrif, er stundum erfitt að vita til hvaða áþreifanlegu aðgerða á að grípa. Að hafa ramma og setja leiðarljós hjálpar fyrirtækjum við að bera kennsl á aðgerðir sem verða ekki aðeins árangursríkar, heldur skynsamlegar í samhengi við allt sem þau gera.

Staðlar eins og ISO 14080, stjórnun gróðurhúsalofttegunda og tengd starfsemi - Rammi og meginreglur fyrir aðferðafræði varðandi aðgerðir í loftslagsmálum, hjálpa vegna þess að þau auðvelda fyrirtækinu að þróa eigin samræmdar og sambærilegar aðferðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hann hjálpar því við að greina, meta og réttlæta aðgerðir og ferla sem geta hjálpað til við að ná markmiðum fyrirtækisins.

ISO 14080 var þróaður með aðkomu lykilstofnana, svo sem Loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og Alþjóðabankans, til að ganga úr skugga um að þeir samræmdust alþjóðlegum skuldbindingum og markmiðum.

Skilvirkari orkunotkun

Gerð og magn orku sem fyrirtæki notar getur haft mikil áhrif á losun koltvísýrings. En hvar á að byrja?

Góð stefna fyrir skilvirka orkunotkun er góður upphafsreitur, en það þarf að hafa skýr markmið sem eru mælanleg og leiðir til að búa til gögn sem eru áreiðanleg. Það þarf líka stöðugt að endurskoða stefnur, markmið og leiðir með tilliti til úrbóta.

Ef þetta hljómar svolítið yfirþyrmandi, þá geta skýrir ferlar og leiðbeiningar um hvernig hægt er að koma því í verk auðveldað málið. ISO 50001, til dæmis, lýsir því hvernig komið er á orkustjórnunarkerfi sem nær yfir slíkar stefnur, mælingar og stöðugar umbætur. Það er líka leið til að sýna starfsfólki, viðskiptavinum, fjárfestum og öðrum hagsmunaaðilum hversu alvarlega er  tekið á orkunýtni og að stefnan sé traust.

Fjárfest í hreinni og grænni framtíð

Að innleiða kolefnishlutlaust hagkerfi og skapa þannig sjálfbærari framtíð er ekki öllum að kostnaðarlausu. Þó er ljóst að það er nauðsynlegt og þarfnast fjárfestingar bæði frá hinu opinbera og einkageiranum. Hluti þeirra fjárfestinga fer í svokölluð „græn skuldabréf“ sem seld eru fjárfestum. Þar er lykilatriði að tryggja að útgefendur þeirra séu ekki bara lánshæfir heldur metnir með tilliti til hæfni þeirra að uppfylla skuldbindingar sínar er varðar umhverfismál.

ISO vinnur að nýrri staðlaröð sem stuðla að því að efla þennan markað með því að skilgreina skýrt hvað raunverulega felst í grænum skuldabréfum, tilgreina kröfur til grænna verkefna og eignir til fjármögnunar, tilgreina hæfi, notkun ágóða, kröfur um upplýsingagjöf og lýsa tryggingarmöguleikum.

ISO 14030 staðlaröðin er þróuð fyrir þá sem gefa út slíkar skuldbindingar eins og hér eru ræddar, þeim sem gefa út sölutryggingar ýmiskonar, þeim sem markaðssetja slíkar skuldbindingar, fyrir fjárfesta við ákvarðanatöku sína, grundvöllur lánstrausts útgefenda og umhverfislegs ávinnings ásamt því að vera stefnumótandi fyrir löggjafarvaldið.

Þetta er þó bara forsmekkurinn af því sem að ISO er að gera á þessu sviði. Sem stendur stuðla 732 staðlar, beint eða óbeint  að markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eða heimsmarkmið númer 13. Á heimasíðu ISO er hægt að nálgast lista yfir heimsmarkmiðin og hvernig staðlar geta hjálpað til við að ná þeim markmiðum.

Þessi frétt er þýdd grein af vef ISO og má nálgast hana hér

Menu
Top