Af hverju eru staðlar ekki ókeypis?

Þegar þú kaupir staðal ertu ekki að greiða einungis fyrir skjalið sem slíkt, uppsetningu og eftir atvikum prentun þess. Staðlar eru búnir til af bestu sérfræðingum á sínu sviði í tækninefndum sem reknar eru af Staðlaráði Íslands eða evrópskum eða alþjóðlegum staðlasamtökum eins og ISO, IEC, CEN og CENELEC. Staðlaráð Íslands á aðild að þeim öllum.

Hverjir kosta staðlagerðina sjálfa?
Sérfræðingar sem starfa ýmist fyrir fyrirtæki í atvinnulífinu eða stjórnvöld taka þátt í störfum tækninefnda staðlasamtaka. Störf þeirra eru því kostuð af atvinnulífinu og/eða stjórnvöldum.
Starfsemi Staðlaráðs Íslands; við verkefnastjórn stöðlunarverkefna, sem þátttakendur í fjölþjóðlegum staðlasamtökum, við staðfestingu staðla sem íslenskra og að veita ýmsa þjónustu og upplýsingar á sviði stöðlunar, er fjármögnuð með þjónustusamningi við ríkið annars vegar og með staðlasölu hins vegar. Staðlaráð Íslands er hagsmunasamtök í atvinnulífinu og þar er ekki gerð krafa um hagnaðardrifinn rekstur. Það er hins vegar mikilvægt að Staðlaráð Íslands hafi efnahagslegt bolmagn til að standa undir útgjöldum við að halda áfram þróunarverkefnum, gæta íslenskra hagsmuna á erlendri grundu, að þjálfa sitt fólk og veita sérhæfða þjónustu á sviði staðlagerðar og -sölu.

Ef staðlar væru afhentir án endurgjalds, hver ætti að fjármagna þá?
Stjórnvöld eða framleiðendur gætu mögulega fjármagnað staðlagerð þar sem staðlar tryggja einsleitni á innri markaði, fjarlægja tæknilegar hindranir í viðskiptum um allan heim og tryggja öryggi, heilsuvernd og skilvirkni. Stjórnvöld og hagsmunasamtök leggja milljónir evra í staðlagerð árlega með framlögum til innlendra og fjölþjóðlegra staðlasamtaka. Með því framlagi eru staðlar í raun niðurgreiddir. Kæmi það ekki til, sem og sú staðreynd að staðalsamtök um allan heim selja staðla til að fjármagna starf sitt má leiða líkur að því að innan við 10% af staðlasafni heimsins væri búið til. Af því leiðir einnig að raunkostnaður við gerð þeirra endurspeglast eingöngu að litlu leyti í verði staðla.

Notkun staðla er valfrjáls
Í langflestum tilvikum er notkun staðla valfrjáls. Viljir þú nota staðal, þá greiðir þú fyrir hann. Ef bornir eru saman staðlar annars vegar og lög og reglur hins vegar þá greiðir þú líka fyrir gerð og aðgengileika löggjafar með sköttum. Verð staðla er kostnaður við að hjálpa þér að þróa og uppfylla tæknilegar kröfur sem varða heilsu, öryggi og umhverfi svo eitthvað sé nefnt.

Virði staðla
Virði staðla er ekki mælt í orðum, blaðsíðufjölda eða fegurð skjalanna. Virði þeirra felst í því að ná samræmi við kröfur sem gerðar eru, markaði sem hann opnar, kostnað sem sparast við aðgang að lausnum bestu sérfræðinga, endurbætur og árangur í umhverfismálum o.s.frv. Þess vegna eru staðlar ekki afhentir án endurgjalds.


Menu
Top