Að lifa með Covid-19

Stjórnvöld og ferðaiðnaðurinn á Íslandi ættu að líta til fordæmis Spánverja. Þar í landi tóku staðlasamtökin UNE höndum saman við heilbrigðisyfirvöld og þá sem hafa hagsmuna að gæta í ferðaþjónustu og gáfu út röð stöðlunarskjala sem innihalda leiðbeiningar og forskriftir fyrir ráðstafanir gegn COVID-19. Leiðbeiningarnar voru settar saman á methraða og hafa verið gerðar aðgengilegar án endurgjalds.

Gagnast öllu samfélaginu
Ferðaiðnaður spannar vítt svið og snertir margar atvinnugreinar. Stöðlunarskjölin endurspegla þessa fjölbreytni og eru gefin út í mörgum hlutum. Grunnheiti raðarinnar er Ráðstafanir til að draga úr útbreiðslu krónuvíruss SARS-CoV-2.

Covid 19 
Einstakir hlutar raðarinnar varða síðan leiðbeiningar og forskriftir fyrir afmarkaða þætti sem snerta ferðaþjónustu; sundlaugar, veitingahús, hótel, leiguíbúðir, þjóðgarða, skemmtigarða, tjaldsvæði, bílaleigur, söfn, ferðaskrifstofur, sögustaði, gólfvelli, almenningssamgöngur, skemmtanalíf o.s.frv.

Af upptalningunni má ráða að þótt forskriftirnar og leiðbeiningarnar séu samdar með ferðaþjónustu í huga þá hafa þær miklu víðari samfélagslega skírskotun. Óhætt er að fullyrða að allt samfélagið muni njóta góðs af útgáfu stöðlunarskjalanna og auðvelda Spánverjum að lifa við COVID-19 og komast undan pestinni eins fljótt og auðið er.

Staðlasamtökin UNE eru vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlun og gefa út staðla á Spáni.  Hér heima fer Staðlaráð Íslands með sama hlutverk gagnvart íslenskum hagsmunaðilum og starfar samkvæmt lögum um staðla. Hlutverk Staðlaráðs er að vera samstarfsvettvangur þeirra sem áhuga hafa á staðlastarfi og eiga hagsmuna að gæta af gerð og notkun staðla hérlendis.

Lesa má um staðlaröðina UNE 0066:2020 hér
Menu
Top