Staðlar eru gríðarlega mikilvægir við alla neytendavernd og daglegt líf okkar er varðað stöðlum, jafnvel þó þeir séu því sem næst ósýnilegir. Það er engin tilviljun að rafhlöður koma í staðlaðri stærð, að kreditkort virka alls staðar í heiminum, að rafmagsnotkun á heimilum er hættulaus, að farartæki með öllum sínum flókna útbúnaði virka og að flutningar milli landa, persónuhlífar og lyftur virka jafn vel og raun ber vitni. Mælikvarðar eru staðlaðir, prófunaraðferðir, kröfur til vara og búnaðar og hugtök eru líka stöðluð. Evrópusambandið tryggir heilsuvernd og öryggi fólks með því að gera kröfur þess efnis í tilskipunum og reglugerðum og óska stöðlunar á tilteknum sviðum til að auðvelda fyrirtækjum að ná þeim kröfum við framleiðslu og prófanir á vörum og þjónustu. Þannig verða til samhæfðir staðlar. CE merkingar eru einnig mikilvægur þáttur í neytendavernd enda er það gert að skilyrði fyrir markaðssetningu á ýmsum vörum. Sjá nánar um CE merkið hér.
Neytendavernd varðar einkum, en er ekki bundin við, staðlagerð á eftirtöldum sviðum:
Evrópsku neytendaverndarsamtökin ANEC eiga fulltrúa í tækninefndum og vinnuhópum evrópsku staðlasamtakanna CEN, CENELEC og ETSI og taka virkan þátt í neytendavernd á flestum sviðum til að tryggja velferð í Evrópu. Heimasíða ANEC er stútfull af fróðleik og upplýsingum um neytendavernd.
Neytendavernd á Íslandi er því vörðuð stöðlum og stöðluðum kröfum og lausnum sem gera líf okkar allra léttara, öruggara og betra á hverjum einasta degi.