Kröfur til björgunarbúnaðar um borð í skipum – Alþjóðlegur staðall af íslenskum uppruna

Alþjóðlegu staðalasamtökin ISO hafa gefið út fyrsta alþjóðastaðalinn um búnað til að bjarga fólki úr sjó. Fullt heiti staðalsins er ISO 19898:2019 Ships and marine technology - Life-saving appliances and arrangements - Means of recovery of persons. Þar eru tilgreindar virknikröfur sem gera þarf til búnaðar sem ætlaður er til að bjarga fólki úr sjó um borð í skip og prófunarkröfur sem slíkur búnaður þarf að standast til að fást samþykktur.

Skorað á alla að innleiða lágmarkskröfur

Staðallinn varð til í framhaldi af setningu nýrrar reglu í alþjóðasamþykktinni um öryggi á heimshöfunum, SOLAS. Reglan gerir kröfur til allra útgerða skipa sem falla undir samþykktina (skip 500 tonn og stærri sem sigla á alþjóðlegu hafsvæði), að skip þeirra hafi ferli og áætlun um hvernig áhafnir þeirra skuli standa að björgun manna úr sjó. Sýna þarf fram á hægt sé að framkvæma björgun með skjótum og öruggum hætti, án verulegrar áhættu fyrir þá sem að henni standa og þá sem er verið að bjarga. Skorað var á alla sem eiga aðild að Alþjóða Siglingamálastofnuninni, þar á meðal Ísland, að innleiða regluna sem lágmarkskröfur.


Pétur Th. Pétursson, framkvæmdastjóri Markus Lifenet.

Alþjóðlegur staðall sem á alfarið uppruna sinn og tilurð á Íslandi

Pétur Th. Pétursson, framkvæmdastjóri Markus Lifenet, vann að gerð nýju reglunnar innan SOLAS sem tæknilegur ráðgjafi í sendinefnd Íslands á fundum Alþjóða Siglingamálastofnunarinnar. Hann var síðan fenginn til að skrifa drög að hinum nýja staðli og leiða í gegnum samráðsferli tækninefndar Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO. Staðallinn er líklega fyrsti alþjóðlegi staðallinn sem á alfarið uppruna sinn og tilurð á Íslandi og byggir á þriggja áratuga reynslu og þekkingu hérlendis.

Staðallinn er fáanlegur í Staðlabúðinni:  ISO 19898 

Menu
Top