Alþjóðadagur menntunar – Hagnýtt verkfæri í tilefni dagsins

Sameinuðu þjóðirnar(UNESCO) hafa lýst 24. janúar Alþjóðadag menntunar. Að þessu sinni er vakin athygli á að menntun gegnir lykilhlutverki ef tryggja á velferð manna og sjálfbæra þróun. Minnt er á að menntun og nám eru óþrjótandi auðlind og grundvallarréttur, og ráðandi um hag almennings og það hvernig mannkyninu mun ganga að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2030.

Verkfæri

Til eru staðlar sem snerta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með ýmsum hætti.

Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa gefið út staðalinn ISO 21001:2018 Educational organizations - Management systems for educational organizations - Requirements with guidance for use.

Staðallinn er verkfæri ætlað fyrirtækjum og stofnunum og hvers konar skipulagsheildum sem að öllu eða einhverju leyti sinna kennslu og námi. Menntun á augljóslega við um skóla en staðallinn tekur með í reikninginn hvers konar námskeiðahald, þar á meðal fræðslustarfsemi sem fer fram innan fyrirtækja þótt fræðsla tilheyri ekki meginstarfsemi þeirra.

Skólar og menntastofnanir ættu að kynna sér ISO 21001. Staðallinn spannar vítt svið menntunar og náms, allt frá háskólamenntun til menntunar ungra barna, en um hið síðarnefnda er sérstakur viðauki um kröfur á því sviði.

Margir kannast við alþjóðlega stjórnunarkerfisstaðla á borð við ISO 9001 og ISO 27001, en ISO 21001 er byggður upp á sama hátt og þeir staðlar. Það sem ISO 21001 hefur þó fram yfir ýmsa stjórnunarkerfisstaðla er að í honum eru leiðbeiningar um hvernig á að beita honum til að gera betur á sviði menntunar.

Menu
Top