Að raungera kvenréttindi – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, 8. mars. Yfirskrift dagsins er að þessu sinni: "Ég er jafnréttiskynslóðin: Að raungera rétt kvenna."

Sameinuðu þjóðirnar ákváðu árið 1977 að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Saga þessa baráttudags er þó mun eldri, en hugmyndin að honum er upphaflega komin frá þýskri kvennréttindakonu að nafni Clara Zetkin. Clara bar upp tillögu um slíkan alþjóðlegan baráttudag á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Konur í Austurríki, Danmörku, Sviss og Þýskalandi riðu síðan á vaðið og héldu upp á fyrsta alþjóðlega baráttudaginn 19. mars 1911. Haldið hefur verið upp á daginn á Íslandi frá árinu 1932.

Margt hefur áunnist í jafnréttismálum frá hinum fyrsta alþjóðlega baráttudegi fyrir meir en hundrað árum. Óunnin verk sjást samt víða. Það á líka við um staðlaheiminn, sem að vísu er venjulega lítt sýnilegur. Þótt staðlar komi við sögu í daglegu lífi flestra - bæði kvenna og karla - hugsum við sjaldnast út í það: Greiðslukort, símar, umferðarskilti, matvæli, heimilistæki; í öllu þessu og miklu fleiru leika staðlar lykilhlutverk. Staðlastarfið, gerð staðla fyrir allt milli himins og jarðar, hefur samt sem áður lengst af verið heimur karla.

Sú staðreynd að nokkur elstu staðlasamtök heimsins eru yfir hundrað ára gömul segir sína sögu. Framan af tengdust staðlar fyrst og fremst framleiðslu iðnaðarvarnings en hafa á síðustu áratugum rutt sér til rúms á öðrum sviðum mannlífsins, ekki síst í stjórnun fyrirtækja og þjónustu af öllu tagi, að ógleymdum samfélagslegum sviðum. Gott dæmi um hið síðastnefnda er alþjóðastaðallinn ISO 26000, sem hefur verið þýddur á íslensku og gerður að íslenskum staðli: ÍST ISO 26000 Leiðbeiningar um samfélagslega ábyrgð.

Gæti verið lýsandi fyrir hlut kvenna í staðlaheiminum, að minnsta kosti framan af. - Myndin er tekin 1946 þegar fulltrúar 25 ríkja komu saman í London til að ræða framtíð staðlastarfs í heiminum. Ári síðar voru Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO stofnuð, 23. febrúar 1947. Stofnfélagarnir sáu fyrir sér að samtökin gegndu mikilvægu hlutverki í endurreisnarstarfi eftirstríðsáranna og bættri sambúð ríkja heimsins.

Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO eru meðvituð um inngróinn kynjahalla og eru staðráðin í að leggja sitt af mörkum við að rétta stöðu kvenna. Samtökin hafa sett upp kynjagleraugun og vilja að í staðlastarfinu verði litið meira til sértækra þarfa kvenna og stúlkna og telur að þannig verði hægt að þróa betri staðla með breiðari skírskotun til hagsbóta fyrir alla, konur og kalla. Samtökin taka mið af  heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna  og eru meðvituð um að staðlar geta verið öflug verkfæri við að draga úr ójöfnuði, auka sjálfbærni og heilbrigðan hagvöxt sem allir njóta góðs af. Sama á við um heimsmarkmið númer fimm,  jafnrétti kynjanna. Einnig þar geta staðlar komið að gagni.

Á síðasta ári setti ISO í gang aðgerðaráætlun í jafnréttismálum (e. The ISO Gender Action Plan). Áætlunin felur í sér að safna gögnum, búa til tengslanet til að deila sögum af árangursríkum aðferðum og auka vitund um staðla sem ýta undir jafnrétti kynjanna og bætta stöðu kvenna.

Staðlaráð óskar íslenskum konum til hamingju með daginn. Líka er tilefni til að minna á jafnlaunastaðalinn ÍST 85* sem sannarlega hefur átt þátt í að raungera rétt kvenna á Íslandi. Staðallinn er öllum aðgengilegur án endurgjalds. (vísun til https://ist85.is/)

* Jafnlaunastaðall gefur fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að koma upp, innleiða, viðhalda og bæta stjórnun jafnlaunamála hjá sér og afla sér eftir atvikum vottunar um að konur og karlar sem þar starfa njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Menu
Top