Stjórn Byggingarstaðlaráðs skipa:
Guðrún Þóra Garðarsdóttir, Vegagerðin formaður
Þórunn Sigurðardóttir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Bjarni Jón Pálsson, Efla Verkfræðistofa
Jón Guðni Guðmundsson, Cowi Verkfræðistofa
Hafsteinn Pálsson,Verkfræðingafélaginu
Aðild að Byggingarstaðlaráði er opin öllum hagsmunaaðilum. Nánari upplýsingar um aðild að Staðlaráði og einstökum fagstaðlaráðum er að finna hér
Ritarar Byggingarstaðlaráðs eru Arngrímur Blöndahl og Ástrós Steingrímsdóttir, verkefnastjórar hjá Staðlaráði Íslands og veita þau upplýsingar um störf Byggingarstaðlaráðs.
Byggingafræðingafélag Íslands
COWI hf
Efla hf.
Framkvæmdasýsla ríkisins
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Innviðaráðuneytið
Landsvirkjun
Límtré Vírnet
Lota ehf
Mennta- og barnamálaráðuneyti
Reykjavíkurborg - Umhverfis- og skipulagssvið
Samband íslenskra sveitarfélaga
Samtök iðnaðarins
Skipulagsstofnun
Steinsteypufélagið
Umhverfis- orku og loftslagsráðuneyti
Vegagerðin
Verkfræðingafélag Íslands
Verkís hf.
Vinnueftirlit ríkisins
Þjóðskrá Íslands
Vinna við endurskoðun ÍST 30:2012 stendur nú yfir og eru haldnir reglulegir vinnufundir. Í vinnuhópnum hafa verið ræddar þær breytingar sem áhugavert er að gera á staðlinum miðað við þá þróun sem hefur verið á útboðs- og framkvæmdamarkaði.
Fyrirhugað er að nú komi inn í efnið tiltekin samsvörun við Fidic skilmálana auk þess sem efnið er aðlagað að sjónarmiðum Víðis Smára Petersen dósent og lögmanns sem koma fram í Ritröð Lagastofnunar „Verktafir og ábyrgð á þeim og afleiðingar“ Til skoðunar er að bæta við staðalinn viðauka með ferlismyndum yfir helstu ferli sem ganga í gegnum rekstur verka sem eru samkvæmt ÍST 30.
Áætluð er að fyrsta nefndarfrumvarp af staðlinum verði tilbúið fyrir sumarfrí 2025 og verklok áætluð í lok árs 2025. Þá fer staðallinn í útgáfuferli.
Endurskoðun þolhönnunarstaðlanna stendur nú yfir hjá evrópsku tækninefndinni CEN/TC 250 Structural Eurocodes. Staðlarnir eru 58 talsins, en auk þeirra er nú unnið að stöðlum sem ná yfir fleiri svið, þannig að stöðlunum mun fjölga talsvert.
Þar sem íslensk byggingarreglugerð gerir ráð fyrir að íslenskir þolhönnunarstaðlar, Eurocodes, séu notaðir við þolhönnun á Íslandi, er nauðsynlegt að fylgja þessari vinnu náið eftir og sjá til þess að þjóðarviðaukar við staðlana verði unnir samhliða til að nýta nýjustu upplýsingar og rannsóknir varðandi vind, jarðskjálfta, snjóálag, lágmörkun kolefnisspors og hringrásarhagkerfið, svo dæmi séu nefnd.
Sú vinna er hafin og eru starfandi fimm íslenskir vinnuhópar með ríflega 20 manns. Flestir eru sérfræðingar frá verkfræðistofunum. Vinnuhóparnir hittast á u.þ.b. mánaðar fresti. Áætlað er að verkefninu ljúki í lok árs 2027 með nýju staðlasetti fyrir þolhönnun hérlendis.
Norðurlöndin eru með sameiginlegan samráðshóp til þess að samræma eins og kostur er innihald staðlanna og þjóðarviðauka landanna. Í norræna vinnuhópnum eru fulltrúar staðlasamtaka landanna, auk fulltrúa viðeigandi stjórnvalda og hagsmunaaðila. Það er meðal annars markmið norrænu ráðherranefndarinnar að gera Norðurlöndin sjálfbærasta, samþættasta og grænasta svæði í heimi og er þessi samvinna liður í því að ná því markmiði.
Byggingarstaðlaráð í samráði við Steinsteypufélagið stofnaði árið 2024 íslenska spegilnefnd til að fylgjast með stöðlum og vinnu við staðla sem varða framleiðslu og notkun steinsteypu. Verksvið nefndarinnar mun ná almennt yfir staðla sem geta varðað notkun steinsteypu í mannvirkjagerð. Um getur verið að ræða evrópska staðla eða aðra sem gagnlegt getur verið að skoða. Á fyrstu stigum var rætt um að nefndin skipulegði sína vinnu út frá evrópskum stöðlum þar sem flestir staðlar sem notaðir eru á sviðinu eru EN staðlar.
Verkefnið felur í sér áform um að hérlendis fari aðilar að vinna sínar verklýsingar á grundvelli norska staðalsins NS 3459:2023. Sjá nánar á HÉR. Áformin ganga meðal annars út á að hvetja mannvirkjaiðnaðinn (stærri verkkaupa) hérlendis til að vinna á grundvelli staðalsins og byggja þannig upp samræmdara kerfi. Þetta er hugsað til að stuðla að auðveldari upplýsingaöflun, samanburði og samkeyrslu upplýsinga sem getur varðað kostnað, kolefnisspor, upplýsingar fyrir BREEAM og upplýsingar inn í BIM-umhverfið, svo eitthvað sé nefnt.
Undirbúningur uppfærslu staðalsins ÍST 16 er í vinnslu þar sem norskir staðlar sem ÍST 16 byggir á hafa verið endurgerðir.
Staðallinn ÍST 67 var gefin út árið 2003 og inniheldur sérákvæði við danska staðalinn DS 439:2000 Norm for vandinstallationer. Nú hefur danski staðallin komið út í nýrri útgáfu og þess vegna hefur Byggingarstaðlaráð ákveðið að kalla saman hóp sérfræðinga til að endurskoða útgáfu staðalsins.
1. gr.
Fagstaðlaráðið starfar í umboði stjórnar Staðlaráðs Íslands í samræmi við starfsreglur þess um fagstaðlaráð.
Að öðru leyti en þessar reglur kveða á um gilda starfsreglur Staðlaráðs og lög um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003 með síðari breytingum.
2. gr.
Hlutverk og verksvið fagstaðlaráða
Fagstaðlaráð er vettvangur stöðlunar á tilteknu fagsviði.
Byggingarstaðlaráð (BSTR) er vettvangur stöðlunar á sviði bygginga og mannvirkjagerðar. Til byggingariðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir byggingarlög. Þar má telja undirbúning, hönnun, útboð, verksamninga og framkvæmdir við byggingarmannvirki, viðhald þeirra og rekstur svo og allt sem varðar byggingarefni og þjónustukerfi bygginga. Til mannvirkjagerðar telst meðal annars gerð samgöngu- og orkumannvirkja.
Fagstaðlaráð í fiskimálum (FIF) er vettvangur stöðlunar á sviði sjávarútvegs, fiskveiða, fiskvinnslu og fiskeldis.
Fagstaðlaráð í upplýsingatækni (FUT) er vettvangur stöðlunar á sviði upplýsingatækni.
Rafstaðlaráð (RST) er vettvangur stöðlunar á sviði raftækni.
Hlutverk ráðs eru:
• gerð árlegrar starfs- og fjárhagsáætlunar,
• samræming og frumkvæði í stöðlunarvinnu og öðrum verkefnum á fagsviðinu,
• umsjón stöðlunarvinnu á fagsviðinu,
• þátttaka í innlendu og erlendu samstarfi á fagsviði sínu,
• umfjöllun um verkefna- og staðlatillögur á fagsviði sínu sem berast frá staðlasamtökum sem Staðlaráð á aðild að.
3. gr.
Fjármál
Tekjur ráðsins eru aðildargjöld þess og fjármagnstekjur, auk annarra tekna og styrkja vegna verkefna. Jafnframt fær það hlutdeild í tekjum af sölu staðla samkvæmt samningi milli Staðlaráðs og fagstaðlaráðanna. Þessar tekjur skal ekki nýta í annað en verkefni á vegum ráðsins.
Fjárhagur ráðsins er aðskilinn fjárhag Staðlaráðs og er því óheimilt að skuldbinda Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega.
Sjóðir ráðsins verða á sérgreindum reikningi í vörslu Staðlaráðs sem sér um alla greiðslu og innheimtu reikninga fyrir hönd ráðsins svo og bókhald þess. Reikningar skulu samþykktir af formanni stjórnar eða ritara fagstaðlaráðsins og staða verkefna skal ætíð vera aðgengileg og rekstur þeirra gagnsær.
Stjórn ráðsins ráðstafar þeim ómörkuðu fjármunum, sem því kunna að leggjast til, í samræmi við rekstrar- og verkáætlanir ráðsins, eins og þær eru hverju sinni.
Stjórn ráðsins er ábyrg gagnvart fjárveitingaraðila varðandi ráðstöfun markaðra fjármuna, sem veittir kunna að verða til þess.
Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga ráðsins skulu kjörnir til tveggja ára úr röðum fulltrúaráðsins á aðalfundi.
4. gr.
Aðild að fagstaðlaráði
Rétt til þátttöku í fagstaðlaráðinu hafa aðilar að Staðlaráði Íslands. Sækja skal skriflega um aðild að ráðinu.
Óski aðili eftir þátttöku í fleiri en einu fagstaðlaráði, skulu aðildargjöld hans skiptast jafnt á milli ráðanna. Hlutfall aðildargjalda hefur ekki áhrif á atkvæðavægi þátttakenda.
Tilkynning um breytingu á þátttöku í fagstaðlaráðinu skal vera skrifleg og berast stjórn þess og Staðlaráði fyrir aðalfund ráðsins.
Úrsögn úr ráðinu skal vera skrifleg og miðast við áramót.
5. gr.
Fulltrúaráð
Þeir sem hafa fengið aðild að fagstaðlaráðinu skulu skipa einn fulltrúa hver til setu í því og einn til vara.
Fulltrúar að ráðinu skulu ábyrgir fyrir því að umbjóðendum þeirra sé ávallt kunnugt um ákvarðanir ráðsins og skulu, eftir því sem við á, leita eftir afstöðu þeirra til mála sem þar eru á dagskrá hverju sinni.
Starfsemi ráðsins fer fram á fundum þess sbr. 6. gr., á vegum stjórnar sbr. 8. gr., innan nefnda sem ráðið skipar og meðal fulltrúa sem starfa á þess vegum í alþjóðlegum nefndum.
6. gr.
Fundir og starfshættir fulltrúaráðs
Halda skal fulltrúaráðsfundi í fagstaðlaráði svo oft sem ástæða þykir, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Jafnframt ber að boða til fundar innan tveggja vikna ef 1/5 hluti fulltrúa óskar þess skriflega.
Fulltrúar í ráðinu eiga einir rétt til fundarsetu, en heimilt er að veita öðrum áheyrnarsæti að fengnu samþykki stjórnar.
Á fundum ráðsins er mótuð stefna þess í einstökum verkefnum og á einstökum verkefnasviðum. Jafnframt tekur fagstaðlaráðið afstöðu til tillagna um upphaf eða lok verkefna, staðfestir rekstrar- og verkáætlanir, fylgist með framvindu verkefna og setur stjórn þau fyrirmæli, sem þurfa þykir. Enn fremur verða á fundum ráðsins tekin til umfjöllunar þau önnur málefni, sem stjórn kýs að leggja fyrir, eða einstakir fulltrúar bera upp með hæfilegum fyrirvara.
Formaður kallar fulltrúaráð saman til funda og skipar fundarstjóra.
Fundarboð skulu send út með sannanlegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar. Með fundarboði skulu, hverju sinni, fylgja þau gögn, sem fyrir fundinn verða lögð, vegna þeirra mála, sem eru á dagskrá. Heimilt er þó að leggja fram á fundi gögn til kynningar máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál, sem ekki kemur til afgreiðslu á fundinum.
Fundur telst ályktunarfær, hafi verið rétt til hans boðað.
Fundargerð skal send fulltrúum í ráðinu innan tveggja vikna frá fundardegi. Komi engar athugasemdir fram innan tveggja vikna frá útsendingu fundargerðar, skoðast hún samþykkt.
Stjórn og tækninefndir boða til kynninga, námskeiða og ráðstefna á vegum ráðsins, eftir því, sem tilefni gefst til, í samráði við skrifstofu Staðlaráðs.
7. gr.
Stjórn fagstaðlaráðsins
Fulltrúar að fagstaðlaráðinu kjósa á aðalfundi þess formann og 4 aðra fulltrúa og eftir atvikum tvo varamenn úr röðum fulltrúa að fagstaðlaráðinu. Kosið er til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum og fer með málefni fagstaðlaráðsins milli funda þess. Hún fundar svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar fundi stjórnar. Í forföllum aðalmanns skal draga um hvor varamaðurinn tekur sæti aðalmanns og fer með atkvæði á þeim fundi.
8. gr.
Fundir og starfshættir stjórnar
Ritari fagstaðlaráðsins situr stjórnarfundi, hefur málfrelsi og tillögurétt, er fulltrúum stjórnar til aðstoðar og sinnir þeim verkefnum, sem honum eru falin sbr. reglur um þátttöku í staðlastarfi.
Stjórn felur formanni og ritara umboð til þess að fara með málefni þess á milli funda
Fundarboð stjórnar skulu hafa borist eigi síðar en 2 dögum fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið. Heimilt er að leggja fram á fundi gögn til kynningar á máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál sem ekki koma til afgreiðslu á fundinum.
Komi fram ósk um að sérstakt málefni verði tekið fyrir á fundi er beiðni þess efnis send til formanns. Með erindinu skulu fylgja öll gögn sem varða afgreiðslu málsins.
Fundur er ályktunarbær ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldan meirihluta fundarmanna þarf til ákvarðanatöku.
9. gr.
Aðalfundur
Aðalfundur fagstaðlaráðsins skal haldinn á fyrri hluta árs, í tæka tíð fyrir aðalfund Staðlaráðs. Hver fulltrúi í ráðinu hefur eitt atkvæði á aðalfundi. Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
a) Tilnefningar í fulltrúaráð
b) Skýrsla formanns fyrir liðið starfsár
c) Skýrslur starfshópa
d) Staða verkefna
e) Reikningar ráðsins
f) Starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs, þ.m.t. ráðstöfun aðildargjalda og annarra fjármuna sem ráðinu kunna að leggjast til
g) Breytingar á starfsreglum
h) Kosning stjórnar
i) Kosning félagslegra skoðunarmanna reikninga
j) Önnur mál
Starfsár ráðsins er almanaksárið.
10. gr.
Rekstur
Rekstur ráðsins er hluti af faglegum og fjárhagslegum rekstri Staðlaráðs. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs ræður, í samráði við formann fagstaðlaráðsins ritara til að sinna faglegum verkefnum fyrir ráðið og ber hann ábyrgð á störfum sínum gagnvart stjórn ráðsins.
Stjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri ráðsins og framkvæmd þeirra verkefna, sem undir það falla.
Ritari ráðsins annast daglegan rekstur þess í umboði stjórnar.
11. gr.
Skipan tækninefnda
Stjórn ráðsins skipar tækninefndir skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi og setur þeim umboð. Stjórn Staðlaráðs staðfestir skipan tækninefnda og umboð þeirra sbr. ákvæði í Starfsreglum Staðlaráðs. Tækninefnd og vinnuhópum ber að fylgja þeim fjárhagsramma sem þeim er settur og er óheimilt skuldbinda fagstaðlaráð, Staðlaráð eða stjórn þess fjárhagslega nema skv. umboði.
Tækninefndir geta skv. reglum um þátttöku í staðlastarfi skipað vinnuhópa til að vinna einstök og afmörkuð verkefni sem tilheyra stöðlunarvinnu.
12. gr.
Túlkun staðla
Komi fram ósk um formlega túlkun einstaks ákvæðis gildandi íslensks staðals, skal ætíð leitað til formanns þeirrar nefndar, sem um málið fjallaði, og hann inntur eftir afstöðu hennar til ákvæðisins. Að henni fenginni gefur stjórn umsögn. Jafnframt ákveður stjórn, hvort ástæða sé til þess að meðhöndla túlkunina sem stöðlunarverkefni.
Ef ágreiningur er um túlkun ráðsins varðandi staðla skal vísa honum til stjórnar Staðlaráðs til úrlausnar.
13. gr.
Atkvæðagreiðsla
Við afgreiðslu mála á fundum fagstaðlaráðsins og stjórnar skal leitað eftir samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.
Komi til atkvæðagreiðslu um almenn málefni ræður einfaldur meirihluti atkvæða.
14. gr.
Ágreiningur
Komi til ágreinings um túlkun þessara reglna skal málinu vísað til stjórnar Staðlaráðs til úrskurðar.
15. gr.
Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu aðalfundar Staðlaráðs Íslands. Þeim verður aðeins breytt hafi breyting verið samþykkt á aðalfundi fagstaðlaráðsins og staðfest á aðalfundi Staðlaráðs. Sama gildir um ákvörðun um slit ráðsins og ráðstöfun fjármuna komi til slita á því.
Þannig samþykkt á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 28. maí 2020.