Vinnuvernd - ISO 45001 markar tímamót 14.05.19

45001_2018

Sigurður Sigurðsson verkfræðingur, fagstjóri áhættumats hjá Vinnueftirliti ríkisins, skrifar um vinnuverndarstaðalinn ISO 45001.

Alls látast 2,78 miljónir manna á ári hverju af völdum vinnuslysa og atvinnutengdra sjúkdóma. Auk þess eru skráð um 374 miljón atvinnutengd slys og sjúkdómstilvik á hverju ári, mörg þeirra mjög alvarleg (www.ilo.org). Enda þótt beinn kostnaður vegna slysa og veikinda sé hár er óbeinn kostnaður mun meiri. Öryggi starfsmanna og vinnuvernd skipta því miklu máli í rekstri fyrirtækja.

Stjórn öryggismála hluti af stjórnkerfinu
ISO 45001:2018 byggir töluvert á breska staðlinum OHSAS 18001:2007. Engu að síður eru staðlarnir um margt ólíkir. ISO 45001 sækir meðal annars margt í tilskipanir og staðla ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, en einnig í aðra staðla, svo sem HSG65 (www.hse.gov.uk). ISO 45001 er líka byggður upp á sama hátt og aðrir alþjóðlegir stjórnunarstaðlar. Það verður því aðgengilegra en áður að byggja upp stjórnkerfi sem uppfylla t. d. bæði kröfur ISO 45001 og ISO 9001:2015.

ISO 45001:2018 leggur áherslu á framsækna áhættustjórnun og gerir kröfu um að útrýma hættum (hazards), frekar en treysta á að hafa stjórn á áhættum (risks) sem þeim fylgja. Fyrirmæli um áhættustjórnun eiga ekki aðeins við um þær hættur sem steðja að rekstrinum, heldur einnig stjórnkerfið sjálft, þ.e. forgangsröðun aðgerða og fjárfesting í stjórnun á að vera í samræmi við mögulegar afleiðingar. Gerð er krafa um að stjórn öryggismála sé óaðskiljanlegur hluti af annarri stjórnun og að ábyrgð öryggismála sé hjá æðstu stjórnendum.

Lagalegar kröfur um vinnuvernd eru meðal þeirra krafna sem ISO 45001 gerir kröfu um að séu uppfylltar, en OHSAS 18001 tilgreinir lagalegar kröfur sem lágmarkskröfur. Fleiri atriði koma fram með ákveðnari hætti í ISO staðlinum, svo sem samráð við starfsfólk.

Gerð er krafa um að rekstraraðilar greini innra- og ytra rekstrarumhverfi sitt og ákvarði hvaða þættir geta haft áhrif á frammistöðuna. Með þessu er frekar tryggt að stjórn öryggis- og heilbrigðismála verði órjúfanlegur hluti af annarri stjórnun.

Mörg fyrirtæki uppfylla kröfur ISO 45001
Vottunaraðilar þurfa að uppfylla kröfur um þekkingu, hæfni og innri gæðastjórnun. Annars vegar er þessum kröfum beint að þeim þáttum sem eru sameiginlegir í nýjum útgáfum ISO stjórnunarstaðlanna (ISO/IEC 17021-1:2015). Hins vegar er þeim beint að þeim þáttum sem sérstaklega varða ISO 45001 (ISO/IEC TS 17021-10:2018). Þessum kröfum er m.a. ætlað að auka gildi vottunar óháðs aðila og þá um leið vægi staðalsins í alþjóðlegu samhengi.

Mörg fyrirtæki sem eru vottuð samkvæmt OHSAS 18001:2007 uppfylla væntanlega kröfur ISO 45001:2018. Engu að síður tel ég að útgáfa ISO 45001:2018 marki tímamót hvað varðar staðla um öryggi og vinnuvernd. Ég hvet því alla til að fylgjast vel með umræðu um þennan staðal, sem og aðra ISO stjórnunarkerfisstaðla.

Fáanlegur í Staðlabúðinni að vef Staðlaráðs: ISO 45001:2018 Occupational health and safety management systems - Requirements with guidance for use


Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja