Gæðastjórnun í sveitarfélögum - Verkfæri fyrir kjörna fulltrúa 10.05.19

Ríki og sveitarfélög eru stærstu veitendur þjónustu í hverju landi og verkefni hinna síðarnefndu snerta íbúana iðulega með beinum hætti. Sveitarfélög hafa á sínum höndum frárennslismál, almenningssamgöngur, heilsugæslu, félagsmál, íþrótta- og tómstundamál, skólamál, götulýsingu, sorphirðu ... . Upptalningin er hvergi nærri tæmandi en ljóst er að íbúar sveitarfélaga gera óhjákvæmilega miklar kröfur til þeirra sem stjórna málum. Einnig blasir við að heildstætt stjórnunarkerfi er nauðsynlegt til að halda utan um málefni eins sveitarfélags þannig að stjórnun þess sé heildræn og skilvirk; komi heim og saman væntingum íbúanna og fjármunum sem úr er að spila, taki mið af umhverfisáhrifum, breytingum á samsetningu íbúa og svo framvegis.   Heimsmarkmid Sameinudu thjodanna
Um 65% af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eru meira og minna háð framgöngu sveitarfélaga.

Áskoranirnar eru fjölmargar. Góðu fréttirnar eru þær að til er þrautreynt stjórnunarkerfi sem allur heimurinn þekkir og margskonar skipulagsheildir, smáar og risastórar, hafa stuðst við áratugum saman. Það er gæðastjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 9001.

ISO 18091 - Leiðbeiningar um beitingu ISO 9001 í sveitarfélögum
ISO 18091 var fyrsti alþjóðlegi staðallinn sem gerður var til að leiðbeina sveitarfélögum við að innleiða gæðastjórnunarkerfi samkvæmt staðlinum ISO 9001. Ný útgáfa ISO 18091 inniheldur nú kröfurnar í ISO 9001:2015 en auk þess ýmis verkfæri í viðaukum sem auðvelda notendum að fá sem mest úr gæðastjórnunarstaðlinum. Viðauki A sýnir til dæmis aðferð sem sveitarfélög geta notað við að meta frammistöðu sína í einstökum málaflokkum og draga fram það sem betur má fara. Umrætt verkfæri er í raun sprottið upp úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fengið góðfúslega að láni þaðan. ISO 18091:2019 Quality management systems - Guidelines for the application of ISO 9001 in local government, eins og staðallinn heitir fullu nafni, er nefnilega ætlaður bæði til að halda uppi skilvirkri þjónustu og ýta um leið undir sjálfbæra þróun sveitarfélaga.

Verkfæri fyrir kjörna fulltrúa
Carlos Gadsden, sérfræðingur í opinberri stjórnun, segir um ISO 18091 að staðallinn sé ekki aðeins tæknilegt skjal fyrir sérfræðinga heldur nauðsynlegt verkfæri fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum: "Sveitarstjórnarmenn geta notað þessa viðauka [staðalsins] til að meta hvernig þeim miðar við að uppfylla 17 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun."

Staðalinn ISO 18091:2019 má fá í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs. Sjá hér >>

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja