STAÐLAR BYGGJA UPP TRAUST 09.04.19

TrustStandards

YFIRLÝSING CEN OG CENELEC VEGNA KOSNINGA TIL EVRÓPUÞINGSINS

Í tilefni kosninga til Evrópuþingsins 23. - 26. maí senda Evrópsku staðlasamtökin CEN og CENELEC frá sér yfirlýsinguna "Staðlar byggja upp traust". Yfirlýsingunni er ætlað að varpa ljósi á hve staðlar eiga ríkan þátt í árangri evrópskra stjórnvalda við að ná fram forgangsmálum sínum.

Staðlaráð Íslands er aðili fyrir Íslands hönd að evrópsku staðlasamtökunum CEN og CENELEC. Eftirfarandi er lausleg þýðing á hluta fréttatilkynningar samtakanna tveggja, en ljóst má vera að efnið snertir Ísland og Evrópska efnahagssvæðið rétt eins ríki ESB og innri markaðinn:

Evrópskir staðlar sem þróaðir eru á vegum CEN og CENELEC gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja að ESB, stærsta hagkerfi heimsins, svari samfélagslegum kröfum og tæknilegum kröfum, bæði dagsins í dag og morgundagsins. Evrópskt staðlastarf kallar saman á einn stað sérfræðiþekkingu úr atvinnulífi, neytendur, borgarasamtök, lítil og meðalstór fyrirtæki og stjórnvöld í kerfi sem byggir á víðtækri þátttöku og sammæli. Allt til að þróa staðla sem eru í takt við tímann og í útbreiddri notkun.

Með yfir 24 þúsund evrópskra staðla gegna CEN og CENELEC lykilhlutverki við að samræma innri markað Evrópu. Einn og sami evrópski staðallinn er gerður að landsstaðli í 34 ríkjum og greiðir þannig leiðina á innri markaðinn og ryður úr vegi tæknilegum viðskiptahindrunum. Þetta einstaka fyrirkomulag í evrópsku staðlastarfi auðveldar stjórnvöldum að fá forgangsmálum sínum framgengt með því að auka hæfni viðskiptalífsins, draga úr kostnaði og skapa traust hjá neytendum.

Yfirlýsingin sem CEN og CENELEC hafa gefið út í dag, 9. apríl 2019, varpar ljósi á hve framlag evrópsks staðlastarfs er mikilvægur stuðningur við markmið stjórnvalda: Gervigreind, græn orka, bálkakeðjur og snjöll heimilistæki. Það er sama hvar borið er niður; á komandi árum munu Evrópuríki þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir til að halda samkeppnisstöðu sinni í heiminum. Staðlar hjálpa til við að ná því marki.

Fimm forgangsmál fyrir framtíð Evrópu

CEN og CENELEC hafa skilgreint fimm mikilvæg svið þar sem staðlar geta stutt rækilega við pólitíska stefnumótun.

  • Samræmdur innri markaður. Staðlar draga úr skrifræði með því að bjóða ódýrari og auðveldari leiðir við að sýna fram á að vara uppfylli evrópska löggjöf.
  • Samkeppnishæfur evrópskur iðnaður með leiðandi stöðu í alþjóðaviðskiptum. Evrópskir staðlar ýta undir tækniframfarir í Evrópu og halda um leið á loft evrópskum hagsmunum í alþjóðlegu staðlastarfi. Þökk sé náinni samvinnu við alþjóðlegu staðlasamtökin ISO og IEC.
  • Traust á nýrri tækni. Staðlar bjóða upp á evrópskar aðferðir sem þykja bestar við umbreytingu samfélagsins frá hliðrænni tækni til stafrænnar, með hagsmuni borgaranna að leiðarljósi.
  • Aukin nýsköpun í Evrópu. Í gegnum nýsamþykkt Strategic Innovation Plan greiða CEN og CENELEC rannsóknum og vísindalegum niðurstöðum leið út á markaðinn.
  • Markmiðin um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Staðlar gagnast við að innleiða sjálfbæra nýtingu auðlinda og orku og vernda um leið neytendur, fólk á vinnumarkaði og umhverfi.

Vinnum saman fyrir Evrópu

Yfirlýsing þessi er nýjasta skrefið í langri hefð fyrir samvinnu hins opinbera og einkageirans í Evrópu: Í stöðlunarstarfi sínu hafa CEN og CENELEC ávallt unnið með evrópskum stofnunum. Eitt mest áberandi svið þeirrar samvinnu eru samræmdir staðlar: Það eru staðlar sem eru þróaðir með það að markmiðið að auðvelda hlítingu við evrópska löggjöf undir "Nýju aðferðinni". Samræmdir staðlar stuðla að því að tryggja langvarandi stöðu Evrópu sem forystuafls í heimsviðskiptum.

Á grunni þessa gjöfula samstarfs vilja CEN og CENELEC, ásamt 34 aðildarríkjum sínum, fyrir alla muni halda áfram að vinna með Evrópusambandinu við að gera Evrópu snjallari, sanngjarnari, sjálfbærari og trúverðugri fyrir alla íbúa. Hið sjálfdrifna, sveigjanlega og víðtæka evrópska staðlasamstarf er mikilvæg auðlind og skilvirkt verkfæri fyrir Evrópusambandið til að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Orðsending frá forystufólki í staðlaheiminum í tilefni af yfirlýsingunni: Sjá  hér >>

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja