Alþjóðlegir staðlar um eignastjórnun á íslensku - ISO 55000 og ISO 55001 25.02.19

55001

Þann 20. febrúar síðastliðinn tóku gildi sem íslenskir staðlar tveir alþjóðlegir staðlar um eignastjórnun, sem jafnframt voru þýddir á íslensku. Um er að ræða staðlana ÍST ISO 55001 Eignastjórnun - Stjórnunarkerfi - Kröfur og ÍST ISO 55000 Eignastjórnun - Yfirlit, meginreglur og hugtakanotkun. Hér segir Ásmundur Jónsson frá tilurð þessara alþjóðlegu staðla og tilgangi. - Staðlarnir eru fáanlegir í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs. 

Alþjóðlegi staðallinn ISO 55001 kom út í ársbyrjun 2014. Útgáfan markaði tímamót í heimi eignastjórnunar. Í ljós kom mikil þörf fyrir staðal af þessu tagi og ISO 55001 varð fljótt eftirsóttur víða um heim. Helstu hvatamenn að gerð staðalsins voru hagsmunaaðilar í Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og í Ástralíu, þar sem er rík áhersla á eignastjórnun, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.

Fullt heiti alþjóðlega staðalsins er ISO 55001:2014 Asset management - Management systems - Requirements er hluti af röð þriggja staðla. Hinir tveir eru ISO 55002 Asset management - Management systems - Guidelines for the application of ISO 55001 og ISO 55000 Asset management - Overview, principles and terminology. Eins og fram kemur hér ofar hafa tveir þessara staðla verið gerðir að íslenskum stöðlum og þýddir á íslensku. Í athugun er hvort ISO 55002 verði einnig þýddur.

Varð til af knýjandi þörf

Eignastjórnun er fag sem hefur þróast mjög hratt síðustu áratugi. Það kemur til af knýjandi þörf sem myndaðist þegar innviðir byggðir upp á síðustu öld fóru að eldast og kalla á kostnaðarsamt viðhald og endurnýjum. Menn stóðu frammi fyrir að forgangsraða verkefnum sem öll voru knýjandi. Kröfur jukust um áreiðanleika í rekstri, meiri fagmennsku, betri áætlanir og rekjanleika. Líka var orðin þörf hjá veitu- og innviðafyrirtækjum, sem mörg eru í opinberri eigu, á að fá viðurkennda aðferðafræði til að fylgja í starfsemi sinni.

Skilgreining á eignastjórnun

Eignastjórnun er skilgreind í ISO 55000 sem "samræmd starfsemi innan skipulagsheildar til að skapa verðmæti með eignum" og spannar ferlið frá því ákveðið er að afla búnaðar og þangað til búnaður er tekin úr rekstri. Staðalinn tekur, sem sagt, til allra þátta þar á milli.

Kröfur ISO 55001

ISO 55001 gerir kröfu um að skipulagsheild setji sér eignastjórnunarstefnu og markmið fyrir þær eignir sem um ræðir, er miði að því að uppfylla viðskiptaleg markmið skipulagsheildarinnar. Til að ná markmiðunum skal gera sérstaka stefnumarkandi áætlun fyrir rekstur eignanna þar sem eru settar fram aðgerðir sem miða að því að uppfylla viðskiptalegu markmiðin. Umrædd áætlun er hryggjarstykkið í starfsemi eignastjórnunar. 

Staðallin gerir kröfu um að byggt sé á þeirri áætlun við gerð eignastjórnunaráætlunar fyrir hvert tæki eða tækjasamstæðu, og að við þá vinnu sé lagt mat á áhættu og tækifæri í rekstrarumhverfi samstæðunnar. Í eignastjórnunaráætlun kemur fram hvaða viðhaldsverk er áætlað að vinna við viðkomandi tæki eða tækjasamstæðu yfir líftíma, til að uppfylla eignastjórnunarmarkmið. 

Tækifæri

Helsti ávinningur af því að fylgja kröfum staðalsins er bætt frammistaða búnaðar, aukin áreiðanleiki, bætt kostnaðarvitund og lægri rekstrarkostnaður, sem fer saman við aukna vitund um áhættu og tækifæri í rekstrinum.  Þar við bætist meiri samvinna starfsmanna þvert á deildir og aukin tiltrú hagsmunaaðila.

Í staðlinum felast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir sem byggja starfsemi sína á því að reka eignir. Gera má stöðumat á rekstri miðað við kröfur staðalsinns til að greina tækifæri til umbóta.

Höfundur, Ásmundur Jónsson, er með meistaragráðu í eignastjórnun frá Manchester-háskóla.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja