Þegar ég kom inn í GG Verk árið 2014 byrjaði ég eins og margir
nýir framkvæmdastjórar á að greina ytri og innri aðstæður. Mér var
efst í huga að okkur tækist að skapa samkeppnisforskot á fremur
einsleitum markaði og tryggja gæði og öryggi starfsmanna. Síðast en
ekki síst vildi ég tryggja að starfsumhverfið væri þroskandi fyrir
alla, að við lærðum fljótt af mistökum og fyndum jafnvel leiðir til
að fyrirbyggja þau.
Sama ár stóð byggingargeirinn frammi fyrir því að þurfa að
innleiða einhverskonar gæðakerfi sem stæðist kröfur
Mannvirkjastofnunar. Þegar ég skoðaði samkeppnis-aðila, þá
sá ég að aðeins eitt íslenskt byggingarfyrirtæki var með vottað
gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001. Við tókum þá ákvörðun um að
hefja strax innleiðingu gæðastjórnunarkerfis, og þrátt fyrir
hrakspár og temmilegan ótta okkar sjálfra, þá fengum við kerfið
vottað átta mánuðum síðar, eða í október 2015.
|
Brynhildur S. Björnsdóttir,
framkvæmdastjóri GG Verks.
|
Fyrirtækjamenning: Forysta, traust og frelsi til að gera
mistök
Grunnforsenda þess að vel takist til í innleiðingarferlinu er sú
að allir stjórnendur sjái ávinninginn í því að hefja ferlið og gefi
sig alla í verkefnið frá upphafi. Að þeir setji sér vörður og geri
áætlun um hvernig innleiðingin skuli fara fram. Því eftir höfðinu
dansa limirnir.
Önnur forsenda er sú að allir millistjórnendur séu með í ferlinu
og fái þjálfun og fræðslu frá upphafi. En öll heimsins þekking og
fræðsla er þó einskis virði ef fyrirtækjamenningin styður ekki við
verkefnið. Við eyddum því ómældum tíma í að sannfæra
millistjórnendur um að kerfið væri ekki gert til þess að finna
sökudólga eða hanka einn né neinn, heldur þvert á móti. Við myndum
öll gera mistök í ferlinu en kerfið væri fyrst og fremst gert til
að greina mistökin og að við lærðum af þeim saman. Því kjarninn og
inntakið í ISO 9001 er að vera sífellt að bæta sig, tilkynna
frávik, greina þau og læra af þeim. En til þess að starfsfólk sé
tilbúið að tilkynna eigin frávik eða samstarfsmanna, þarf að ríkja
fullkomið traust til yfirmanna og eigenda fyrirtækisins. Án þess
fellur kerfið um sjálft sig.
Starfsmenn úr 20 í 80 og velta aukist um
172%
Fyrir utan að hafa skapað okkur sérstöðu á annars einsleitum
markaði þá hefur orðið mælanlegur ávinningur eftir að við komum
okkur upp vottuðu gæðakerfi. Við höfum stóraukið starfs- og
viðskiptavinaánægju um leið og við höfum fækkað öryggisfrávikum og
haldið 100% skilum á verkefnum innan tímaramma. Á sama tíma hefur
starfsmönnum fjölgað úr 20 í 80 og við höfum aukið veltu
fyrirtækisins um 172%.
Eftir þessa reynslu getum við óhikað mælt með því að nota
staðalinn sem hluta af stefnumörkun fyrirtækja. Ávinningurinn er
ótvíræður. Eins er staðallinn mjög gott verkfæri til að auðvelda
stækkun, en það hefði verið nær ómögulegt fyrir okkur að ná að
halda jafn vel utan um þá stækkun sem við höfum gengið í gegnum
undanfarin ár, án þess að vera með samræmt og staðlað kerfi sem
allir skilja og ganga að allstaðar í fyrirtækinu. Svo ekki sé
minnst á ávinning þess að hugarfar starfsfólks endurspeglar nú orð
Henry Ford: "Quality means doing it right when no one is
looking."