ÍST 45 Hljóðvist - Ný útgáfa 27.09.16

Þann 1. maí síðastliðinn tók gildi ný og endurskoðuð útgáfa staðalsins ÍST 45 Hljóðvist - Flokkun íbúðar- og atvinnu-húsnæðis. Í staðlinum er íbúðar-húsnæði og ýmiss konar atvinnuhúsnæði flokkað í mismunandi gæðaflokka með tilliti til hljóðvistar. 

yrir nýbyggingar eru 3 flokk-ar, þar sem lágmarksgæði hljóðvistar eru skilgreind í flokki C. Síðan eru tveir flokkar með betri hljóðvist: Flokkur B með betri hljóðvist en í flokki C og flokkur A með mun betri hljóðvist en í flokki C. Auk þess er svo fjórði flokkurinn D fyrir endurbætur á eldra húsnæði, þar sem ekki er talið gerlegt eða nauðsynlegt að uppfylla hljóðflokk C. Sjá gr. 11.1.3 í byggingarreglugerð: Staðfesting hljóðvistar vegna breytinga þegar byggðra mannvirkja. Rétt er að benda sérstaklega á að í byggingarreglugerð er vísað í gildandi staðal ÍST 45, þannig að ÍST 45:2016 varð ígildi byggingarreglugerðar strax við gildistöku.

Uppbygging staðalsins
Fjallað er um eftirfarandi gerðir húsnæðis eins og var í 2. útgáfu staðalsins (frá 2011), en númer kaflanna hafa hliðrast til og í heiti skólakaflanna (kaflar 7 og 8) hafa bæst við tónlistarskólar og dagvistun:

 • Kafli 6 Íbúðarhúsnæði
 • Kafli 7 Grunnskólar, leikskólar, tónlistarskólar, dagvistun, frístundaheimili og annað skólahúsnæði fyrir öll skólastig þar til grunnskóla lýkur
 • Kafli 8 Framhaldsskólar, háskólar, tónlistarskólar og annað skólahúsnæði eftir grunnskólastig
 • Kafli 9 Sjúkrahús og hjúkrunarstofnanir
 • Kafli 10 Gististaðir
 • Kafli 11 Skrifstofur
 • Síðan bætast við nokkrir nýir kaflar um húsnæði sem ekki var sérstaklega tilgreint áður:
 • Kafli 12 Veitingasalir
 • Kafli 13 Iðnaðar-, verslunar- og rannsóknarbyggingar
 • Kafli 14 Móttökur, afgreiðslur, anddyri og biðsvæði
 • Kafli 15 Gangar og tengirými í byggingum
 • Kafli 16 Samgöngumiðstöðvar
 • Kafli 17 Menningarhús og íþróttamannvirki
 • Síðasti kaflinn heldur sér áfram sem síðasti kaflinn í staðlinum:
 • Kafli 18 Hljóðísogsflokkar fyrir atvinnuhúsnæði - annað en áður er talið.
Samsvarandi staðlar hafa verið gefnir út í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og stuðst er við kröfur þessara staðla að nokkru leyti eins og áður. Sérstaklega var tekið mið af endurskoðun norska staðalsins árið 2012 (NS 8175:2012) og fyrirmyndin að köflum 12-17 er fengin þaðan.

Nýju kaflarnir eru ekki eins ítarlegir og kaflar 6-11, og aðeins er gerð krafa um hljóðdeyfingu og hljóðstig frá tæknibúnaði. Varðandi hljóðdeyfingu er krafa um ómtíma miðuð við lofthæð rýmisins eins og í norska staðlinum, en fallið var frá því að nota það viðmið líka í köflum 6-11. Auk ómtímakröfu er einnig krafa um meðalhljóðísogsstuðul í köflum 12-17 eins og í norska staðlinum.

Loks má nefna að bætt hefur verið inn nýjum kafla framarlega í staðlinum:

 • Kafli 5 Almennt um gerð bygginga og viðmiðunargildi.

Efni kaflans er að hluta til nýtt og ætlað til útskýringar. Þar er einnig að finna skýringartexta sem áður var í kaflanum um íbúðarhúsnæði.

Helstu breytingar á viðmiðunargildum
Við ákvörðun viðmiðunargilda í flokki C voru þau eins og áður löguð að reglugerðarákvæðum íslenskra reglugerða þar sem það á við. Mjög litlar breytingar voru gerðar á viðmiðunargildum í flokki C. Í kafla 7 var þó t.d. sett inn ný lína í töflu 13 um ómtíma í sérkennslurýmum, og í kafla 6 um íbúðarhúsnæði er felld út krafa um högghljóðstig frá einkasvölum. Loks má nefna að í flokkum A og B er gerð krafa um hljóðdeyfingu í rýmum innan íbúða í nýrri töflu (tafla 3). Lítilsháttar breytingar voru gerðar á sumum viðmiðunargildum í flokkum A, B og D til þess að fá betra heildarsamræmi í viðkomandi töflur, og sumir kaflar voru einfaldaðir með því að vísa í einhvern af nýju köflunum (12-17).

Stærsta breytingin er vafalaust sú að ákveðið var að breyta viðmiðunargildum í íbúðarhúsnæði fyrir lofthljóðeinangrun milli íbúðar og sameiginlegra ganga, stigaganga og svalaganga. Sú breyting nær yfir alla hljóðflokkana A, B, C og D. Í stað þess að hafa eitt viðmiðunargildi óháð aðstæðum, eins og er í norska staðlinum, var farin hliðstæð leið og í sænska staðlinum að leyfa frávik við hagstæðar aðstæður:
Í töflu 1 um lofthljóðeinangrun milli íbúðar og sameiginlegra ganga, stigaganga og svalaganga, voru línur felldar út og öðrum bætt inn. Í flokki C var áður gerð ófrávíkjanleg krafa um R'w ≥ 55 dB, en nú er sú krafa á bilinu 44-55 dB. Gerð er krafa um óbreytt viðmiðunargildi (55 dB) þar sem sérstök hætta er á truflun, en almenna krafan verður 48 dB. Ennfremur verður heimilt að miða við 44 dB á stúdentagörðum, heimavistum og stofnunum fyrir aldraða. Viðmiðunargildi í flokkum A, B og D taka hliðstæðum breytingum, sjá nánar töflu 1 í staðlinum.

Með þessu er komið til móts við sjónarmið um að þessar kröfur hafi verið of stífar og hafi leitt til óþarflegra kostnaðarsamra lausna í sumum tilvikum. Til hliðsjónar má nefna að krafan um 44 dB hljóðeinangrun er sú sama og gilt hefur og gildir áfram um hljóðflokk C fyrir hótelherbergi.

Það ætti að vera hægt að ná allt að 48 dB hljóðeinangrun með einni mjög góðri hurð í stað þess að hafa tvær sæmilegar hurðir með forstofu á milli, eins og þarf til að uppfylla kröfuna um R'w ≥ 55 dB. Þetta eru þá sérsmíðaðar/sérinnfluttar hurðir og nokkuð dýrar enda þurfa þær að uppfylla sem viðmiðunarreglu Rw ≥ 48 dB mælt á tilraunastofu. Samsvarandi fyrir hótelhurðir í hljóðflokki C er Rw ≥ 43 dB mælt á tilraunastofu.

Þarft verkfæri
Ætla má að staðallinn nýtist bæði hönnuðum, verktökum og ekki síst verkkaupum og/eða notendum húsnæðisins til að gera skilgreindar kröfur um gæði hljóðvistar og hvernig unnt sé að uppfylla þær. Staðallinn nýtist í fyrsta lagi til þess að flokka byggingar og hluta af byggingum á grundvelli hljóðvistar. Einnig má nota staðalinn til þess að gera meiri kröfur til hljóðvistar en það lágmark sem ákveðið er í reglugerðum, og til að setja hljóðkröfur við endurnýjun húsnæðis.

Steindor GudmundssonSteindór Guðmundsson,
byggingarverkfræðingur
hjá Verkís

   

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja