Úðakerfi fyrir heimili og stofnanir 10.03.15

Þann 20. janúar síðastliðinn staðfesti Staðlaráð nýjan norrænan staðal, ÍST INSTA 900 Heimilisúðakerfi. Staðallinn er í þremur hlutum og fjallar um úðakerfi til notkunar á þeim stöðum þar sem fólk býr og sefur. Efni staðalsins snýst um hönnun, uppsetningu, prófanir og viðhald kerfanna og þar eru einnig ákvæði um hvernig aflað er vatns fyrir þau.

Ódýrari kerfi sama öryggi
Þegar hús eru byggð, eru gerðar miklar kröfur til öryggis þeirra gegn eldsvoðum. Í stærra atvinnuhúsnæði er oft sett úðakerfi sem hannað er eftir staðlinum ÍST EN 12845 Föst slökkvikerfi - Sjálfvirk úðakerfi - Hönnun, uppsetning og viðhald, en sá staðall miðast meira við eignavernd en við verndun mannslífa. Eignaverndin gerir kröfu um allmikið vatnsmagn og langan virknitíma gagnstætt hinu sem gerir kröfu til þess að kerfin séu hraðvirk og slökkvi eldinn áður en hætta skapast fyrir fólk.

Úðakerfi sem hönnuð eru eftir þessum staðli eru mun einfaldari að gerð en hefðbundnu kerfin fyrir atvinnuhúsnæði. Í staðlinum er leyft að sleppa úðurum í vissum hluta húsa svo sem í baðherbergi, á háalofti, og slíkum rýmum sem ekki eru ætluð til gistingar og ætti það að geta gert kerfin ódýrari án þess að draga úr öryggi þeirra.

Þrír flokkar úðakerfa
Staðallinn skiptir úðakerfum í þrennt: Flokk 1 sem fjallar um sérbýlishús allt að þriggja hæða og fjölbýlishús með allt að fjórum íbúðum, flokk 2 sem gildir fyrir íbúðarhús allt að 8 hæðir og flokk 3 sem fjallar um stofnanir svo sem hjúkrunarheimili, sjúkrahús og fl. þar sem íbúarnir þurfa oft aðstoð við rýmingu.

Í flokki 1 er einungis reiknað með því að 1 - 2 úðarar fari í gang í einu og að kerfið virki í minnst 10 mín en í hinum flokkunum er reiknað með allt að 4 úðurum í einu og virknitíma í minnst 30 mín. Vatnsþörf kerfanna er í mörgum tilfellum það lítil að vatnsinntak sem þegar er til staðar nægir fyrir þau.

Í kerfin má nota allar gerðir plaströra sem vottuð eru fyrir úðakerfi en einnig, þó með vissum takmörkunum, aðrar gerðir svo sem PEX rör. Minnstu rörastærðir eru almennt 20 mm en nota má allt niður í 15 mm rör þegar sýnt er fram á það með útreikningum að slíkt sé í lagi.

Einfaldari lausnir
Í staðlinum eru margar aðrar nýjungar í samanburði við eldri staðla um úðakerfi sem gerir það að verkum að einfaldara er en áður að koma slíkum kerfum fyrir.

Með því að setja úðakerfi í hús má oft slaka til með ýmsar aðrar brunavarnir húsanna, svo sem brunahólfun þeirra, gerð flóttaleiða og efnisval sem í mörgum tilfellum gæti leitt til þess að hús með úðakerfi geta orðið ódýrari í byggingu en hús sem byggt er á hefðbundinn hátt.

Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur hjá Mannvirkjastofnun.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja