Tækninefnd FUT hlaut EDI-bikarinn 27.02.14

Ragnar Torfason tekur við EDI-bikar Icepro

Aðalfundur ICEPRO var haldinn í vikunni. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra flutti ávarp og afhenti EDI-bikarinn. Bikarinn hlaut, að þessu sinni, Tækninefnd FUT um grunngerð rafrænna viðskipta.

Viðurkenningin er veitt tækninefndinni fyrir vinnu við tækniforskriftir um stöðluð rafræn viðskipti, sem stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í íslensku efnahagslífi.

Ragnar Torfi Jónasson, fráfarandi formaður tækninefndarinnar, tók við bikarnum og þakkaði fyrir heiðurinn með þessum orðum:

"Hæstvirti ráðherra, fundarstjóri og ágætu fundargestir.

Fyrir hönd Tækninefndar FUT um grunngerð rafrænna viðskipta færi ég ICEPRO þakkir fyrir auðsýndan heiður. Útnefning ICEPRO er viðurkenning á því ágæta starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Tækninefndarinnar undanfarin misseri. Tækninefndin, sem starfar á vettvangi Staðlaráðs Íslands og fylgir starfsreglum um hlutleysi, gegnsæi og opna þátttöku, hefur skilað frá sér afurðum sem eiga það sammerkt að styðja við sjálfvirkni og hagræðingu í íslensku atvinnulífi og hjá hinu opinbera.

Á nýliðnum vetrarólympíuleikum var áhugavert að fylgjast með íshokkí þar sem samstilltur hópur leikmanna keppti af ástríðu til að ná settum markmiðum. Að vera í tækninefnd er dálítið eins og að vera í íshokkíliði. Fjölbreytilegur hópur einstaklinga kemur sér saman um skýr markmið, stillir upp leikáætlun og svo er bara keyrt á fullu innan þess faglega ramma sem Staðlaráð býr tækninefndum. Og stundum tekur ástríðan völdin og hanskarnir fjúka. Mig langar fyrir hönd Framkvæmdaráðs FUT að þakka þeim fjölmörgu einstaklingum sem hafa lagt hönd á plóg undanfarin ár í Tækninefnd FUT um grunngerð rafrænna viðskipta því án þeirra værum við skemmra á veg komin.

Enn fremur vil ég færa þakkir til þeirra sem styrkt hafa starf Tækninefndarinnar undanfarin ár því staðlar verða ekki til úr engu. Framlög frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Samtökum Atvinnulífsins, Reykjavíkurborg og Staðlaráði Íslands gerðu Tækninefndinni kleift að útfæra tækniforskriftir fyrir reikninga, kreditreikninga, vörulista, pantanir og yfirlit. Fjármálaráðuneytið áætlar að 500 milljónir sparist árlega með notkun rafræna reikninga hjá ríkinu, tala sem líklega er varlega áætluð því sé miðað við reynslu Evrópuþjóða er ávinningurinn hugsanlega tvö til þrefalt meiri. Þá er ótalinn ávinningur einstakra sveitarfélaga og fyrirtækja sem líklega nemur milljörðum á ári.

Tækninefnd FUT um grunngerð rafrænna viðskipta setti sér það markmið að dreifa rafrænum tækniforskriftum til notenda án endurgjalds. Enn fremur var áhersla lögð á að styðja við innleiðingu hjá hugbúnaðarfyrirtækjum með því að bjóða upp á sannreyningu viðskiptaskjala sem var gert með stuðningi Fjársýslunnar. Ég tel að þessi aðferðafræði sé lykillinn að þeim frábæra árangri sem nú er að nást.

En þótt björninn sé kominn á hnén vantar enn nokkuð upp á að hann sé unninn. Á næstu árum þarf áfram að vinna markvisst að því að mæta þörfum íslensks atvinnulífs um samræmingu í rafrænum viðskiptum og tryggja viðhald þeirra viðskiptaskjala sem þegar hafa verið samræmd. Mikilvægast er þó að Ísland taki þátt í vinnu við gerð staðla á Evrópuvettvangi. Aðkoma íslenskra hagsmunaaðila í evrópsku staðlastarfi er forsenda þess að framtíðarstaðlar falli vel að ríkjandi tækniumhverfi á Íslandi. Sú hætta er raunveruleg um þessar mundir, að stökkbreyttir evrópskir staðlar taki gildi á Íslandi með fullum þunga og setji samræmingarvinnu síðustu ára á Íslandi í uppnám, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Sem fráfarandi formaður Tækninefndar FUT um grunngerð rafrænna viðskipta á ég mér þá ósk að íslenska ríkið og Samtök Atvinnulífsins tryggi fjármögnun vegna þátttöku Íslands í erlendu staðlasamstarfi.

Um leið og ég óska ICEPRO til hamingju með glæsilegan aðalfund vil ég einnig þakka ICEPRO fyrir samstarf undanfarinna ára, en stefna FUT og ICEPRO lagði grunninn að þessu mikilvæga starfi. Við erum kannski búin að slíta barnsskónum. Innleiðing á reikningi hefur gengið framar björtustu vonum en á næstu misserum tekur við innleiðing á kreditreikningi, vörulista og pöntunum. Þetta er búið að vera frábært, en við erum bara rétt að byrja."

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja