Reglur um íslenska forstaðla og tækniforskriftir

Samþykktar af stjórn Staðlaráðs þann 16. apríl 2007.

Íslenskur forstaðall

Staðlaráði er heimilt að gefa út íslenska forstaðla. Forstaðall (FS) er skjal sem inniheldur reglur eða leiðbeiningar og er ætlað til notkunar á svipaðan hátt og staðall.

Forstaðall hefur takmarkaðan gildistíma, að hámarki þrjú ár, og skal koma fram á forsíðu forstaðalsins hver gildistími hans er. Að þeim tíma liðnum er um þrjá kosti að velja:

  • framlengja gildistímann um tvö ár til viðbótar,
  • fella forstaðalinn úr gildi, eða
  • breyta honum í staðal eftir þeim reglum sem um samþykkt og staðfestingu staðla gilda.

Hafi gildistími forstaðals verið framlengdur um tvö ár skal að þeim tíma liðnum fella hann úr gildi eða breyta honum í staðal.

Forstaðall þarf að fara í gegnum sams konar umsagnarferli og staðall. Þó getur umsagnarfrestur verið styttri, að lágmarki 30 dagar.

Ákvæði forstaðals mega ekki stangast á við ákvæði gildandi íslenskra staðla.
Staðfestingarnefnd staðfestir gildistöku forstaðals eftir umsagnarferli, en ekki er þörf á að fella hann formlega úr gildi við lok gildistímans.

Að öðru leyti gilda sömu reglur um gerð forstaðla eins og um íslenska staðla.

Tækniforskrift

Staðlaráði er heimilt að gefa út tækniforskriftir. Tækniforskrift (TS) er skjal sem inniheldur reglur eða leiðbeiningar og er ætlað til notkunar á svipaðan hátt og staðall.
Tækniforskrift hefur takmarkaðan gildistíma, að hámarki þrjú ár, og skal koma fram á forsíðu tækniforskriftarinnar hver gildistími hennar er. Að þeim tíma liðnum er um þrjá kosti að velja:

  • framlengja gildistímann um tvö ár til viðbótar,
  • fella tækniforskriftina úr gildi, eða 
  • breyta henni í staðal eftir þeim reglum sem um samþykkt og staðfestingu staðla gilda.

Hafi gildistími tækniforskriftar verið framlengdur um tvö ár skal að þeim tíma liðnum fella hana úr gildi eða breyta henni í staðal.

Tækniforskrift getur verið samþykkt af tækninefnd eingöngu, án formlegs umsagnarferlis.
Ákvæði tækniforskriftar mega ekki stangast á við ákvæði gildandi íslenskra staðla eða forstaðla, en mismunandi tækniforskriftir um sama efni mega vera samtímis í gildi.
Staðfestingarnefnd staðfestir gildistöku tækniforskriftar eftir samþykkt tækninefndar, en ekki er þörf á að fella hana formlega úr gildi við lok gildistímans.

Að öðru leyti gilda sömu reglur um gerð tækniforskrifta eins og um íslenska staðla.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171