 |
Ævintýraferðir af ýmsu tagi fara vaxandi víða um heim, hvort sem
um er að ræða ferðir sem seldar eru af ferðaþjónustufyrirtækjum með
hagnað í huga eða ferðir á vegum annarra. Slíkar ferðir fela
gjarnan í sér þrautir og áhættu sem liggja fyrir áður en lagt er af
stað. Að taka ásættanlega áhættu er hluti af skemmtuninni en felur
þá líka í sér hættu, eins og gefur að skilja. Til að skemmtunin
geti orðið sem best þurfa þeir sem bjóða ævintýraferðir að gera
eins miklar öryggisráðstafanir við skipulagningu þeirra og
framkvæmd og kostur er.
Staðlaröð og handbók
Alþjóðlegi staðallinn ISO 21101 Adventure tourism - Safety
management systems - Requirements (Ævintýraferðaþjónusta -
Öryggis-stjórnunarkerfi - Kröfur) hefur þann tilgang að setja fram
lágmarkskröfur sem gera þarf til öryggisstjórnunarkerfis þeirra sem
bjóða upp á ævintýraferðir. Staðallinn tiltekur hvernig fyrirtæki
af því tagi skuli reka og stýra starfsemi sinni með tilliti til
öryggis. Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa jafnframt gefið út
handbók með leiðbeiningum um notkun staðalsins. Heiti bókarinnar er
ISO 21101 - Adventure tourism - Safety management
systems - A practical guide for SMEs. Bókina er hægt að panta
hjá Staðlaráði.
Í sömu staðlaröð eru tvö önnur skjöl um sama efni. Annars vegar
tækniskýrslan ISO/TR 21102, sem fjallar um æskilega hæfni þeirra
sem leiða ævintýraferðir, að köfunarferðum undanskildum, en um
slíkar ferðir er fjallað í sérstökum stöðlum. Fullt heiti
tækniskýrslunnar er ISO/TR 21102 Adventure tourism - Leaders -
Personnel competence. Hins vegar er það staðallinn ISO 21103
Adventure tourism - Information for participants. Eins og heitið
gefur til kynna, tiltekur staðallinn þær lágmarksupplýsingar sem
þurfa að liggja fyrir áður en lagt er af stað, bæði af hálfu
þátttakenda í ævintýraferðum og þeirra sem sjá um og bjóða
ferðirnar.
Allir nefndir staðlar eru fáanlegir í Staðlabúðinni á vef
Staðlaráðs
Það er kunnara en frá þurfi að greina, að vöxtur í íslenskri
ferðaþjónustu hefur verið gríðarlegur á umliðnum örfáum árum, og
óhætt að tala um að sprenging hafi orðið. Vöxturinn reynir
óhjákæmilega á með margvíslegum hætti og krefst fjölbreyttra
aðgerða á mörgum sviðum, þar á meðal agaðri og faglegri
vinnubragða. Í þeim efnum eru staðlar dýrmæt verkfæri. Auk
alþjóðlegra staðla er að finna í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs
fjölmarga íslenska og alþjóðlega staðla sem varða
ferðaþjónustu.
|