Vinnustofa um stöðlun og nýsköpun vakti mikla ánægju

Í síðustu viku stóð Staðlaráð Íslands fyrir vinnustofu sem vakti bæði ánægju og athygli meðal þeirra opinberu hagaðila sem mættu. Þar var prófuð ný nálgun til að fræðast um stöðlun og staðla, með það að markmiði að varpa ljósi á framtíðina og móta hugmyndir um ný staðlatengd verkfæri.

Áherslan var á að skapa lifandi umræðuvettvang þar sem þátttakendur gátu rýnt í möguleika stöðlunar á nýjan hátt, með skapandi nálgun og gagnvirkum aðferðum. Vinnustofan var haldin í fallegu umhverfi á Berjaya Natura hótelinu við Nauthólsvík, og mættu um 30 manns frá hinu opinbera.

Magnus Hakvåg leiddi vinnustofuna

Leiðbeinandi vinnustofunnar var norski sérfræðingurinn Magnus Hakvåg, sem hefur á síðustu tveimur áratugum verið ráðgjafi fyrir norsku ríkisstjórnina í málum er varða nýsköpun, hugverkarétt og stöðlun. Þá hefur hann einnig starfað fyrir alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki á borð við WIPO, WTO, OECD, ESB, NATO, Airbus og Hershey’s.

Hakvåg er jafnframt eigandi og framkvæmdastjóri House of Knowledge, alþjóðlegs vettvangs sem leggur áherslu á þekkingarstjórnun, hugverkarétt og nýsköpunarstefnu. Með reynslu sinni og breiðri sýn veitti hann þátttakendum innblástur og tækifæri til að líta á stöðlun sem öflugt verkfæri til að stuðla að nýsköpun og aukinni samkeppnishæfni.

Framtíðarmótun í öndvegi

Vinnustofan markaði nýjan kafla í nálgun Staðlaráðs á fræðslu og stefnumótun um stöðlun. Með því að færa samtalið nær þátttakendum og gefa þeim tækifæri til að taka virkan þátt í að móta hugmyndir og framtíðarsýn, skapaðist lifandi vettvangur þar sem nýjar hugmyndir og möguleikar sáu dagsins ljós.

Þátttakendur lýstu ánægju með bæði framsetningu og framkvæmd, og lögðu áherslu á að nálgunin væri bæði hvetjandi og uppbyggileg. Ljóst er að vinnustofan hefur skapað sterkan grunn fyrir áframhaldandi samtal um hvernig stöðlun getur orðið drifkraftur í nýsköpun og sjálfbærri þróun í íslensku samfélagi.

Menu
Top